Samkomulag hefur náðst milli MP banka og Straums um samruna bankanna með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakannanam samþykki hluthafafunda og eftirlitsaðila. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu sem bankarnir tveir sendu frá sér.
Þar segir að "gangi sameiningin eftir hefur hún í för með sér augljósan ávinning fyrir hluthafa félaganna. Jafnframt getur sameinaður banki eflt og bætt þjónustu við viðskiptavini og verið áhugaverður og metnaðarfullur vinnustaður. Sameinaður banki mun horfa til sóknarfæra á sviði eignastýringar og fjárfestingabankastarfsemi og yrði hann með sterka stöðu á íslenskum fjármálamarkaði á þeim sviðum. Sameinaður banki hefur jafnframt trausta eiginfjárstöðu og styrk til að veita fjárfestum, sparifjáreigendum og atvinnulífi sérhæfða bankaþjónustu. Nú taka við áreiðanleikakannanir og viðræður um nánari útfærslu á sameiningu bankanna. Niðurstöður þeirrar vinnu verða lagðar fyrir hluthafa MP banka og Straums fjárfestingabanka til endanlegs samþykkis."
Legið lengi í loftinu
Sameining bankanna tveggja hefur legið í loftinu frá því í fyrrahaust. Kjarninn skrifaði meðal annars ítarlega fréttaskýringu í byrjun nóvember 2014 um þær þreifingar sem áttu sér þá stað á bakvið tjöldin. Fyrirsögn hennar var "Straumur kaupir hlut í ÍV – MP, Straumur og ÍV í eina sæng?". Þá hafði Straumur reynt það sem margir upplifðu sem óvinveitta yfirtöku á MP banka með því að kaupa hlut nokkurra hluthafa í bankanum í óþökk annarra. Síðan þá hafa staðið yfir miklar þreifingar milli MP banka og Straums.