Samkeppniseftirlitið hefur sektað Mjólkusamsöluna (MS) um 370 milljónir króna vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu, sem er brot á samkeppnislögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu sem birt er á heimasíðu þess. MS beitti smærri keppinauta samkeppnishamlandi mismunun með því að selja þeim hrámjólk á 17 prósent hærra verði en fyrirtæki sem eru tengd MS greiddu.
Ítarlega fréttatilkynningu eftirlitsins vegna málsins má sjá hér.
Í henni segir meðal annars frá forsögu málsins. Með breytingum á búvörulögum á árinu 2004 var ákvæðum samkeppnislaga sem ætlað er að vinna gegn samkeppnishamlandi samruna og samráði vikið til hliðar á mjólkurmarkaði. „Fyrir breytingarnar voru starfandi fimm mjólkurafurðastöðvar hér á landi en samrunar sem ekki hefur verið unnt að hlutast til um á grundvelli samkeppnislaga hafa leitt til því sem næst einokunarstöðu MS og tengdra félaga í vinnslu og heildsöludreifingu á mjólkurafurðum. Á grundvelli undanþágu frá banni samkeppnislaga við samráði hafa KS og MS með sér mikið samstarf í framleiðslu og sölu á mjólkurafurðum og auk þess á KS 10% hlut í MS. Af hálfu MS er sagt að líta beri á MS, KS og Mjólku undir eignarhaldi KS sem eina „viðskiptalega heild.“ Ekki leikur vafi á því að MS er í markaðsráðandi stöðu,“ segir í tilkynningu eftirlitsins.
Þá er tekið fram að rannsóknin hafi leitt í ljós mismunun gagnvart samkeppnisaðilum, og neytendur hafi skaðast á endanum.
„Rannsókn málsins hefur leitt í ljós að MS hefur mismunað Mjólkurbúinu og áður Mjólku á meðan hún var í eigu fyrri eigenda, með því að selja fyrirtækjunum ógerilseydda hrámjólk á allt að 17% hærra verði en gilti gagnvart tengdum aðilum, þ.e. KS og síðar Mjólku þegar hún hafði verið seld KS. Var þessi mismunun í hráefnisverði til þess fallin að veikja Mjólku sem keppinaut MS og tengdra félaga og stuðla að sölu félagsins til KS. Eftir að Mjólka komst í eigu KS fékk félagið hrámjólk á allt öðru og lægra verði en áður frá MS, en þegar félagið var keppinautur MS og KS á mjólkurvörumarkaði. Hrámjólk er grundvallar hráefni til vinnslu mjólkurafurða og hefur mismunun í verði hennar augljós áhrif á möguleika þess fyrirtækis sem sætir henni til þess að keppa. Umræddir keppinautar MS þurftu ekki aðeins að sæta því að markaðsráðandi fyrirtæki beitti þá mismunun í verði heldur einnig að félög tengd MS fengju þetta hráefni á mun lægra verði sem var til þess fallið að veita þeim verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum. Með þessu móti var geta þeirra til þess að keppa við MS og tengd félög skert með alvarlegum hætti og markaðsráðandi staða MS samstæðunnar varin. Er það til þess fallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda.“