Angela Merkel Þýskalandskanslari og Frans páfi eru á meðal þeirra sem hefur ítrekað verið spáð friðarverðlaunum Nóbels þetta árið.
Á föstudaginn verður greint frá því hver hlýtur verðlaunin fyrir árið 2015. Í ár eru tilnefningarnar 273 talsins, sem er næstmesti fjöldi tilnefninga nokkru sinni. Metið var slegið í fyrra þegar 278 tilnefningar bárust Nóbelsnefndinni. Í ár eru 68 stofnanir eða samtök tilnefnd og 205 einstaklingar.
Betfair, stærsta veðmálasíða heimsins, sendi frá sér lista í síðustu viku yfir þá sem fyrirtækið telur líklegasta til að hljóta útnefninguna, og þar var Frans páfi á toppnum. „Jafnvel þótt enginn páfi hafi hlotið verðlaunin er Frans oft álitinn frjálslynt tákn,“ sagði Cormac Dowling hjá Betfair. Aðrir á listanum voru meðal annars uppljóstrararnir Edward Snowden og Chelsea Manning, Ban Ki-Moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Mary Robinson, fyrsti kvenkyns forseti Írlands. Aðeins þrjár konur eru í heildina á lista Betfair yfir 20 líklegustu verðlaunahafanna, og þær sitja í þremur neðstu sætunum.
Merkel komið sterk inn í flóttamannakrísunni
Frans páfi er hins vegar kominn niður í annað sætið hjá annarri stórri veðmálasíðu, William Hill. Þar er Angela Merkel Þýskalandskanslari komin í efsta sætið og líkurnar á því að hún hljóti verðlaunin eru nú metnar 2/1.
Yfirmaður Friðarrannsóknarstofnunarinnar í Osló (PRIO), Kristian Berg Harpviken, spáir því að Merkel hljóti verðlaunin í ár, fyrir viðbrögð sín við flóttamannakrísunni í Evrópu. „Á tímum þar sem margir hafa forðast að taka ábyrgð hefur Merkel sýnt sanna leiðtogahæfileika og hafið sig yfir pólitík og farið mannúðlega leið í erfiðum aðstæðum.“ Merkel sé kannski ekki óeigingjörn Móðir Teresa, og viðhorf hennar hafi heldur harðnað undanfarið, en það muni koma í hlut hennar að stjórna því hvernig farið er að í þessum málum.
Merkel var tilnefnd af hópi þýskra þingmanna, en ekki fyrir þátt sinn í flóttamannakrísunni, enda þurfti að tilnefna fyrir 1. febrúar síðastliðinn og þá höfðu Evrópuríkin ekki gripið til mikilla ráðstafana. Hún var tilnefnd fyrir hlut sinn í því að koma á vopnahléi í Austur-Úkraínu.
Lítt þekktur prestur gæti stolið senunni
Harpviken segir að vegna þess að flóttamannakrísan hafi verið eitt stærsta málið í alþjóðastjórnmálum á árinu komi fleiri sem því máli tengjast til greina sem friðarverðlaunahafar. Hann nefnir sérstaklega Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, sem hefur þegar hlotið verðlaunin tvisvar, síðast árið 1981. Hann nefnir líka prestinn Mussie Zerai, sem er búsettur á Ítalíu en upprunalega frá Erítreu.
Zerai er líka á listanum hjá Betfair yfir líklega verðlaunahafa, og Telegraph fjallaði um hann í gær sem manninn sem gæti tekið verðlaunin af páfanum, með hans blessun. Zerai er fertugur prestur í kaþólsku kirkjunni og hann var tilnefndur fyrir að bjarga lífi þúsunda flóttamanna sem fara í hættuförina yfir Miðjarðarhafið, með því að svara í símann. Fólk hringir í hann úr bátum og vörubílum ef það er í vanda statt. Hann kemur GPS hnitum og öðrum grundvallarupplýsingum til strandgæslunnar á Ítalíu og ESB svo hægt sé að bjarga fólkinu.
Þetta hófst árið 2003 þegar hann lét blaðamann hafa símanúmer sitt, en blaðamaðurinn þurfti hjálp við að þýða frásagnir Erítreumanna sem voru fastir í búðum í Líbýu. Símanúmerinu var dreift og það var skrifað á vegg í líbýsku fangelsi. Undanfarin ár hefur hann þannig orðið að nokkurs konar eins manns neyðarlínu, og númeri hans hefur verið dreif víða í Norður-Afríku. Nú er svo komið að hann fær símtöl lengra að, til dæmis frá Jemen og Indónesíu.