Þegar þetta er ritað hafa hátt í 37 þúsund manns skrifað undir áskorun til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að hann vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir „þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“
Eins og alkunna er var undirskriftasöfnuninni, undir merkjum Þjóðareignar, hrundið af stað eftir að innihald frumvarps Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegsráðherra, um úthlutun makrílkvóta kvissaðist út í gegnum fjölmiðla. Svo virðist sem að almenningur hafi tekið betur við sér en stjórnarandstaðan, sem lét málið sig merkilega lítið varða.
En hvað gerist nú? Undirskriftarlisti Þjóðareignar er orðinn sá níundi stærsti í sögu lýðveldisins, og því ljóst að Ólafur Ragnar er nú þegar undir töluverðum þrýstingi að vísa lögum sjávarútvegsráðherra til þjóðarinnar. Hins vegar er alls óvíst hvort Ólafur Ragnar muni láta undan þrýstingnum, hann virðist nú bara oftast gera það sem honum hentar, nema jú þegar það er verið að þrýsta á hann að gefa kost á sér aftur.
En fær Ólafur Ragnar yfirhöfuð frumvarpið til undirritunnar? Ætli það sé nú ekki líklegra að frumvarpið muni í það minnsta taka töluverðum breytingum áður, í ljósi andstöðunnar við það eins og það er í dag. Sigurður Ingi er í það minnsta ekki að fara að keyra jafn óvinsælt má í samfélaginul í gegn um þingið í dag, eftir Fiskistofu-fíaskóið sem hann gerðist afturreka með, lækkuð veiðigjöld á útgerðina á hans vakt og boðaðar breytingar hans á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem aldrei litu dagsins ljós. Þannig lítur nú afrekaskrá sjávarútvegsráðherra út.
Þá gerir það óneitanlega stöðuna líka eilítið flókna, að fylgi Framsóknarflokksins er í lausu lofti um þessar mundir.