Ólöf Nordal innanríkisráðherra mun svara spurningum Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, um notkun dróna á þinginu í dag. Katrín hefur lagt fram fyrirspurn til Ólafar um það hvort hún hyggist beita sér fyrir almennri löggjöf um notkun dróna, bæði hjá opinberum aðilum og einkaaðilum.
Samgöngustofa hefur unnið að reglugerð um notkun dróna hér á landi, og henni hefur verið skilað til innanríkisráðuneytisins. Hún hefur þó ekki verið kynnt til umsagnar, en greint var frá því í sumar að það yrði gert á næstunni. Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, sagði við Vísi að í reglugerðinni væri lögð áhersla á öryggissjónarmið, að gæta að einkalífi og að drónar hindri ekki aðrar loftferðir. Hann sagði þó frekar verið að horfa á möguleikana og tækifærin sem fælust í drónum, og það væri til dæmis hægt að nota loftrými Íslands sem tilraunasvæði.
Í sumar tók Þingvallanefnd einnig ákvörðun um að banna flug dróna í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þetta var gert að fordæmi margra annarra þjóðgarða. „Við höfum orðið fyrir vaxandi ónæði í þjóðgarðinum vegna þessara dróna og það eru þá gestir sem kvarta undan ágangi og truflun, gestir sem eru þá á gangi í Almannagjá, eða í þinghelginni eða nálægum stöðum. Síðan hafa sumarhúsaeigendur kvartað líka. Og þetta er fyrsta og fremst vegna hávaða og ónæðis,“ sagði Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður við RÚV í sumar.
Katrín Jakobsdóttir hefur þó einnig viljað að drónar yrðu skoðaðir í víðara samhengi. Hún og þrír aðrir þingmenn VG lögðu á síðasta þingi fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að Alþingi lýsi stuðningi við áform um alþjóðlegt bann við framleiðslu og beiningu sjálfvirkra vígvéla - dróna sem beri sprengjur og skotvopn.