Rithöfundurinn landsþekkti Jón Kalman Stefánsson skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum í gær og vakti mikla athygli. Þar kallaði hann eftir því að vinstri- og jafnaðarmenn fylki sér á bakvið Katrínu Jakobsdóttir, formann Vinstri grænna, sem leiðtoga nýs sameiginlegs framboðs í anda R-listans. „Ef hún hefur áhuga á að hrifsa samfélagið úr járnklóm hagsmuna, nýfrjálshyggju og lýðskrumara, þá verður hún að stíga fram og sameina vinstri– og miðjumenn að baki sér. Og aðrir forystumenn eiga að víkja. Þeir eiga að taka hagsmuni þjóðar fram yfir persónulegan metnað og verða riddarar í sveit Katrínar Jakobsdóttur. Hennar tími er einfaldlega runninn upp. Hvort sem henni líkar betur eða verr,“ Segir Jón Kalman í greininni.
Áhugavert verður að sjá hvort hugmyndin fær hljómgrunn innan hinna stjórnarandstöðuflokkanna. Katrín mælist enda með langmest traust allra stjórnmálamanna á Íslandi (46,7 prósent) sem sitja á þingi. Flestir aðspurðra í könnunun telja hana líka ákveðna vinna vel undir álagi, heiðarlega, í tengslum við almenning, að hún vinni vel undir álagi og standi vöru um hagsmuni almennings. Augljóst er að Katrín höfðar til fólks, þótt flokkur hennar, Vinstri grænir, geri það ekki (fylgi við flokkinn mælist 10,8 prósent).
Augljóst er að Píratar munu ekki hafa áhuga á samstarfi þar sem þeir mælast með um þriðjung atkvæða um þessar mundir og hugmyndafræði þeirra á enga samleið með bandalagi miðju- og vinstrimanna. En mögulega hefur ákall almennings eftir Katrínu Jakobsdóttur hreyft eitthvað við Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, og Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar. Báðir mælast með sáralítið persónufylgi og flokkar þeirra mælast þeir tveir minnstu á þingi í nýjustu könnunum (Samfylkingin með 10,7 prósent og Björt framtíð með 8,3 prósent).
Stóra spurningin er, geta þeir ýtt persónulegum metnaði sínum til hliðar og leitt Katrínu Jakobsdóttur til forystu?