Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sótti utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins sem lauk í Antalya Tyrklandi í dag. Á meðal þess sem fjallað var um á fundinum voru málefni Úkraínu, Afganistan og breytt öryggisumhverfi í Evrópu.
Þar tilkynnti utanríkisráðherrann um þátttöku Íslands í stuðningssjóði við starfsmenntun her- og lögreglukvenna í Jórdaníu í samræmi við áherslur Íslands á að efla þátttöku kvenna í öryggis- og friðarmálum.
Fundað var um breytingar á öryggisumhverfi Evrópu vegna hernaðarumsvifa Rússa og uppgangs öfgamanna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Á fundinum kom auk þess fram að vel gangi að þróa viðbúnaðaráætlun bandalagsins sem ætlað er að efla sameiginlegar varnir og viðbragðsgetu Atlantshafsbandalagsins og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu verði að mestu lokið á næsta ári.
Það voru hins vegar ekki hin alvörugefnu þungamál sem utanríkisráðherrarnir ræddu sem vöktu mesta athygli á fundinum heldur gjörningur sem þeir stóðu fyrir á skemmtun að fundinum loknu. Þar stigu þeir upp á svið, á samt Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og sungu saman þróunarlandahjálpar-slagarann "We Are the World" eftir Michael Jackson og Lionel Ritchie sem var upprunalega gefið út árið 1985. Gunnar Bragi lét ekki sitt eftir liggja og tók þátt í uppátækinu, þótt hann hafi ekki fengið hljóðnemann til að láta söngljós sitt skína. Gunnar Bragi birtist eftir 55 sekúndur lengst til hægri á skjánum.
https://www.youtube.com/watch?v=2_wfMrz9_mY