Ríkissjóður myndi verða af 168,3 milljörðum króna á hverju ári ef persónuafslátturinn yrði hækkaður svo að 350 þúsund króna mánaðartekjur væru skattfrjálsar. Hækkun fjármagnstekjuskatts upp í 25% myndi hins vegar aðeins auka tekjur ríkissjóðs um 2,9 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýbirtu svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þingkonu VG.
Lilja spurði hvaða áhrif það hefði á ríkissjóð miðað við núgildandi tekjuskattshlutföll að hækka persónuafslátt svo að mánaðartekjur á bilinu 250 til 350 þúsund yrðu skattfrjálsar. Í svari ráðherra kom fram að áhrif þess á ríkissjóð væru tvenns konar, annars vegar myndi hærri persónuafsláttur leiða til minni tekna af tekjuskatti, en hins vegar hefur það áhrif til hækkunar á uppgjöri ríkissjóðs við sveitarfélög vegna nýtingar persónuafsláttar til greiðslu útsvars. Engin óbein áhrif á ríkissjóð, líkt og auknar virðisaukaskatttekjur vegna aukinnar neyslu voru þó metin í svarinu við fyrirspurninni.
Samkvæmt Bjarna þyrfti persónuafsláttur að vera 78 þúsund krónur á mánuði til þess að mánaðartekjur að 250 þúsund krónum yrðu skattfrjálsar. Slík hækkun myndi kosta ríkissjóð um 88 milljarða kórna, sem samvarar um 45% af álagningu tekjuskatts á einstaklinga í fyrra.
Til þess að mánaðartekjur að 350 þúsund krónum, sem er nálægt lágmarkslaunum, verði skattfrjálsar þyrfti persónuafslátturinn hins vegar að vera 110 þúsund krónur á mánuði. Heildartekjutap ríkissjóðs af því er metið á 168,3 milljarða, en það samsvarar 85 prósentum af tekjuskattsstofninum.
Lilja spurði einnig hvaða áhrif það hefði á ríkissjóð að hækka fjármagnstekjsuskatt, sem er núna í 22 prósentum, upp í 23-25 prósent. Samkvæmt Bjarna myndi slík hækkun auka tekjur ríkissjóðs um 1 til 2,9 milljarða króna, eða sem svarar til um 4 til 12 prósent af heildarskattinum í álagningu síðasta árs.