Fyrstu myndirnar sem borist hafa til Jarðar af yfirborði Plútó og fylgitunglsins Karon gerbreyta hugmyndum okkar um Plútó, segir Sævar Helgi Bragason, hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. „Þetta er með áhugaverðustu hnöttum sem menn hafa heimsótt hingað til.“
Myndir sem New Horizons-könnunarfarið tók er það flaug fram hjá Plútó á þriðjudag hafa verið að berast til Jarðar síðan í gær. Nýjustu myndirnar eru aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal. Myndirnar af Plútó eru aðeins teknar í birtunni frá Karon sem endurkastaði dimmu ljósi Sólarinnar. Styrkur ljóssins er þúsund sinnum minni en á Jörðinni.
„Við fyrstu sýn er þetta miklu áhugaverðari staður en við gátum látið okkur dreyma um. Bæði Plútó og tunglið Karon,“ segir Sævar Helgi í samtali við Kjarnann en það hefur komið vísindamönnum á óvart hversu jarðfræðilega ólíkir þessir tveir hnettir reynast vera. „Það kemur líka mjög mikið á óvart hvað yfirborðið á Karon lítur út fyrir að vera unglegt. Þar er greinilega eitthvað ferli í gangi; Einhver jarðfræðileg virkni sem kemur töluvert á óvart.“
Karon þykir sérstaklega merkilegur hnöttur. Þar er yfirborðið mjög unglegt. Efst til hægri á þessari mynd má líka greina hátt í 9 kílómetra djúpt gljúfur sem hefur vakið spurningar vísindamanna. (Mynd: NASA)
Nýjar uppgvötanir sem þarf að skýra
Ungleg fjöll stingast upp af yfirborði Plútó sem benda til þess að enn sé einhverskonar jarðvirkni á hnettinum. Skortur á gígum bendir einnig til þess að yfirborð plánetunnar sé 100 milljón ára gamalt. Það er að segja nokkuð ungt, í samanburði við sólkerfið okkar sem talið er vera 4,56 milljarða ára gamalt.
„Á Plútó sjáum við nánast enga gíga, sem kemur mikið á óvart. Við sjáum hins vegar breiðar sléttur með einhverskonar efnum sem líta út fyrir að hafa brunnið. Og svo þessi fjögurra kílómetra háu ísfjöll. Hvaða ferli er það sem skapaði þessi fjöll á ísilögðu yfirborði?“ spyr Sævar Helgi og bendir á að þetta sé algerlega ný uppgvötun sem á eftir að skýra með sannfærandi hætti.
Ung ísfjöll stingast fjóra kílómetra upp úr yfirborði Plútó. Það þarf nýjan skilning á virkni himintungla til þess að skýra þessi unglegu fjöll. (Mynd: NASA)
„Hvaða ferli eru það sem knýja áfram þessa jarðfræðilegu virkni sem við sjáum á Plútó eða Karon. Við bara höfum ekki hugmynd eins og staðan er núna. Menn þurfa að koma fram með nýjar hugmyndir um það hvernig hægt er að halda svona litlum hnöttum svona óskaplega langt í burtu virkum.“
Á ferð með geimförum
Þegar Kjarninn náði tali af Sævari Helga var hann staddur í Ódáðahrauni að virða fyrir sér Öskju ásamt tveimur bandarískum geimförum og afkomendum Neil Armstrong, fyrsta manninum sem steig á Tunglið. Geimfararnir eru Walter Cunningham sem var í fyrstu mönnuðu Apollo-geimferðinni, Apollo 7, og Russel Schweickart sem fór í geimgöngu og prófaði tunglbúninginn einna fyrstur í Apollo 9.
Þeir Cunningham og Schweickart æfðu í Ódáðahrauni á sjöunda áratugnum á vegum NASA, en geimferðastofnunin sendi geimfara sína til Íslands til að koma þeim í svipaðar aðstæður og taldar voru vera á Tunglinu.
Allar myndirnar sem NASA birtir úr New Horizons-leiðangrinum verða aðgengilegar á vef geimferðastofnunarinnar.