Hver skoðanakönnunin á fætur annarri sýnir nú að Píratar njóta langmests fylgis allra stjórnmálaflokka. Þeir geta mjög vel við unað eins og er, með yfir 30 prósenta fylgi. Píratar virðst hins vegar gera sér grein fyrir raunveruleikanum, sem er sá að undanfarin ár hefur fylgi flokka á Íslandi verið mjög fallvalt, og getur nánast horfið á augabragði. Það gildir um Pírata sem og aðra. Hlutirnir breytast hratt og það eru ennþá tvö ár í kosningar að óbreyttu. Það er langur tími.
En jafnvel þótt fylgið í skoðanakönnunum haldist áfram hjá Pírötum er sigurinn ekki endilega unninn. Eins og Kjarninn hefur greint frá, og kemur líklega fáum á óvart, sækja Píratar mest af sínu fylgi til ungs fólks. Í aldurshópnum 18 til 29 ára segjast 44,5 prósent myndu kjósa Pírata ef gengið yrði að kjörborðinu í dag. Í þessum aldurshópi bera þau höfuð og herðar yfir aðra flokka, næstu flokkar fá 12,5 prósenta fylgi.
Í síðustu kosningum á Íslandi, sem reyndar voru sveitarstjórnarkosningar en ekki Alþingiskosningar, var kosningaþátttaka þessa hóps hins vegar ekkert til að hrópa húrra fyrir. Fylgið var um og undir 50 prósentum í aldurshópnum 18 til 29 ára, sterkasta hópi Pírata. Stóra spurningin er því hvernig Píratar kæmu út úr kosningum, jafnvel þótt þeir héldu áfram að mælast jafn vel og þeir gera nú.