N1 Rafmagn, sem í gær sendi frá sér yfirlýsingu eftir að hafa sætt gagnrýni bæði samkeppnisaðila og neytenda fyrir að vera með tvöfalda og ógagnsæa verðlagningu á rafmagni, hefur ekki útskýrt hvers vegna fyrirtækið ætlar einungis að endurgreiða neytendum mismuninn á rafmagnstöxtunum tveimur frá 1. nóvember síðastliðnum.
Í svari til Kjarnans kemur fram að fyrirtækið sé að fara betur yfir málið og svara um þetta atriði megi vænta í næstu viku.
Fyrirtækið, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, hefur verið útnefnt af Orkustofnun sem söluaðili á rafmagni til þrautavara allt frá 1. júní árið 2020, eins og Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóri hjá N1 nefndi í grein sem birtist á Vísi þann 19. janúar.
Í sömu grein sagði Hinrik að skömmu síðar hefði komið í ljós að erfitt væri að gera ráð fyrir þrautavaraviðskiptunum við innkaup á raforku, þar sem fjöldi viðskiptavina væri óþekkt stærð á hverjum tíma fyrir sig.
„Leiddi það til þess að N1 Rafmagn þurfti að jafnaði að kaupa raforku fyrir þessa einstaklinga á skammtímamarkaði og jafnvel jöfnunarmarkaði. Á þeim mörkuðum eru verð hærri og hefur fyrirtækið því neyðst til að rukka þrautavaraviðskiptavini í samræmi við það, því annars væri tap á viðskiptunum,“ skrifaði Hinrik Örn og því má álykta að Íslensk orkumiðlun/N1 Rafmagn hafi verið með tvöfaldan taxta á raforku til neytenda allt frá sumrinu 2020.
Kjarninn beindi spurningum til fyrirtækisins í morgun og óskaði eftir útskýringum á því af hverju fyrirtækið hefði í yfirlýsingu sinni ákveðið að binda sig við að endurgreiða einungis frá 1. nóvember.
Í svari sem barst frá Þyrí Dröfn Konráðsdóttur, forstöðumanni markaðssviðs N1, segir að fyrirtækið sé að „fara betur yfir málið“ og að einhver svör ættu að berast til blaðamanns hvað þetta varða „fljótlega eftir helgi.“
Í yfirlýsingunni frá N1 Rafmagni síðan í gærkvöldi sagði meðal annars frá því að ákveðið hefði verið að selja alla raforku til heimila samkvæmt uppgefnum taxta frá 1. janúar 2022, hvort sem viðskiptavinir hefðu skráð sig í viðskipti hjá félaginu eða kæmu óafvitandi í viðskipti í gegnum þrautavaraleið stjórnvalda.
„Jafnframt hefur verið ákveðið að endurgreiða mismun á uppgefnum taxta og þrautavarataxta frá 1. nóvember síðastliðnum þegar félagið var valið af Orkustofnun til að sinna þessu hlutverki. Við störfum á neytendamarkaði og tökum mark á þeim athugasemdum sem okkur berast og biðjumst velvirðingar á því að hafa ekki gert það fyrr. Aldrei var ætlunin að blekkja neytendur á nokkurn hátt og þykir okkur leitt ef neytendur túlka það svo,“ en yfirlýsingin var undirrituð af Hinriki Erni.