Verðlag á Íslandi hefur nánast staðið í stað á síðustu tólf mánuðum, að undanskildum hækkunum á húsnæðisverði. Samkvæmt Hagstofunni er verðbólgan, það er verðlagshækkanir á síðustu tólf mánuðum, aðeins 0,2 prósent ef húsnæðiliðum er sleppt í mælingum. Með húsnæði er verðbólgan aftur á móti 1,5 prósent í júní.
Fjallað er um verðbólguþróunina í nýútkominni skýrslu peningastefnunefndar Seðlabankans til Alþingis og sagt að megindrifkraftur verðbólgu að undanförnu hafi verið hækkun húsnæðisverðs. Vakin er athygli á að fyrir verðbólgumælingar í maí og júní vantaði upplýsingar um þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu vegna verkfalls lögfræðinga hjá sýslumanni.
„Þótt verðbólga sé enn lítil hafa verðbólguhorfur versnað miðað við spá Seðlabankans frá því í maí sl. þar sem samið hefur verið um mun meiri launahækkanir en samrýmast verðstöðugleika til lengri tíma litið. Í tengslum við kjarasamningana kynnti ríkisstjórnin einnig aðgerðir sem munu auka ríkisútgjöld og draga úr skatttekjum og fela því að öðru óbreyttu í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum,“ segir í skýrslunni. Bent er á að verð á mat- og drykkjarvöru hefur hækkað um 2,7 prósent frá því í desember síðastliðnum. Sem fyrr greinir hafa þær hækkanir, enn sem komið er, ekki haft mikil áhrif til hækkunar á verðbólgu.
0,0 prósent verðbólga á Íslandi
Hagstofa Íslands birti í morgun upplýsingar um samræmda vísitölu neysluverðs í júnímánuði. Vísitalan mælir verðbólgu í löndum EES og er eins og nafnið gefur til kynna samrýmd milli landa. Mælingin er keimlík vísitölu neysluverðs, það er sú sem notuð er til að mæla verðbólguna á Íslandi, en er lítillega frábrugðin. Þannig eru útgjöld ferðamanna tekin með í reikninginn og ekki er litið til kostnaðar við eigin húsnæði.
Samkvæmt samræmdu vísitölunni er verðbólga á Íslandi núll prósent. Það er hún einnig í Bretlandi og á Spáni. Verðbólga mælist mest í Noregi þar sem hún er 2,6 prósent en minnst á Kýpur og Grikklandi, þar sem verðhjöðnun mælist 2,1 og 1,1 prósent. Listann má sjá hér að neðan.