Fjölgun nýrra starfa á íslenskum vinnumarkaði 2014 var nær öll á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrra fjölgaði starfandi einstaklingum um 2.800 frá fyrra ári og þar af fjölgaði þeim um 2.400 á höfuðborgarsvæðinu en 400 á landsbyggðinni. Skiptingin er mun ójafnari en árið 2013, þegar starfandi fólki fjölgaði um 5.800 og þar af um 3.300 á höfuðborgarsvæðinu, eða 57 prósent aukningarinnar.
Hvar fjölgaði störfum? | Árið 2013 | Árið 2014 |
Starfandi fjölgaði um | 5800 | 2800 |
Þar af á höfuðborgarsvæðinu | 3300 (57%) | 2400 (86%) |
Þar af utan höfuðborgarsvæðisins | 2500 (43%) | 400 (14%) |
Starfandi fólki á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 2,1 prósent í fyrra og voru að meðaltali 115.200 manns starfandi. Á Landsbyggðinni fjölgaði starfandi um 0,6 prósent og voru að meðaltali 62.500 manns starfandi. Á grafinu hér fyrir neðan sést hvernig fjöldi starfandi hefur þróast á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar (utan höfuðborgarsvæðisins). Starfandi á höfuðborgarsvæðinu eru rúmlega 20 prósent fleiri en um aldamótin 2000. Á sama tíma hefur starfandi aðeins fjölgað um tæp þrjú prósent utan höfuðborgarsvæðisins.
Fjöldi starfandi 2000 til 2014 | Create infographics
Línuritið hér að neðan sýnir síðan hvernig fjölgun starfa hefur breyst frá ári til árs en störfum hefur fjölgað frá 2011.
Nær öll fjölgun í ferðaþjónustu
Í kjölfar birtingar Hagstofunnar á Vinnumarkaðsrannsókn 2014 greindi Morgunblaðið frá því að nær öll fjölgun starfandi á árinu hafi verið innan ferðaþjónustunnar, eða um 2.700 störf af þeim 2.800 störfum sem fjölgunin nam, samkvæmt greiningu Ólafs Más Sigurðssonar, sérfræðings hjá Hagstofunni.
Í því ljósi er athyglisvert að fjölgun starfandi var nær öll á höfuðborgarsvæðinu, eða að 86 prósent hluta. Það verður þó að hafa í huga að fólksfjölgun hefur verið töluvert meiri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Frá aldamótum 2000 hefur fólki á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 16-74 ára (þ.e. sá aldur sem vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar nær til) fjölgað um fjórðung en um 13,3 prósent á sama tíma á landsbyggðinni.