Fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlar að hækkun fasteignamats um komandi áramót, sem nemur að meðaltali 23,6 prósentum á íbúðarhúsnæði, muni hafa þau hliðaráhrif á vaxtabótakerfið að tæplega 2.800 framteljendur sem áður fengu einhverjar vaxtabætur verði fyrir fullum skerðingum og fái þar af leiðandi engar vaxtabætur.
Sömuleiðis er áætlað að allt að 90 prósent þeirra sem fá vaxtabætur muni verða fyrir auknum skerðingum bótanna vegna hærra fasteignamats, en þessar tölur koma fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur þingmanni Flokks fólksins, um áhrif hækkunar fasteignamats.
Ekki komi til greina að hækka skerðingarmörkin
Samkvæmt svari ráðherra kemur ekki til greina að hækka skerðingarmörk vaxtabóta vegna hækkandi fasteignamats. Í svari Bjarna kemur fram að spenna sé mikil í þjóðarbúinu á alla mælikvarða, sem kalli á aðhald á sviði peninga- og ríkisfjármála.
„Mikilvægt er að armar hagstjórnar rói í sömu átt þar sem eftirgjöf á sviði ríkisfjármála kallar á þeim mun meiri hækkun stýrivaxta til þess að draga úr þenslu og verðbólgu. Í uppsveiflum, rétt eins og niðursveiflum, er mikilvægt að áhrif sjálfvirkra sveiflujafnara ríkisfjármála fái að koma fram eins og frekast er kostur. Í vaxtabótakerfinu kemur sjálfvirk sveiflujöfnun m.a. þannig fram að vegna eignaskerðingarmarka minnka greiðslur samhliða hækkun íbúðaverðs. Hækkun eignaskerðingarmarka myndi draga úr sjálfvirkri sveiflujöfnun kerfisins, þvert á hagstjórnarstefnu stjórnvalda, og myndi eingöngu gagnast íbúðaeigendum, einkum þeim sem hafa orðið eignameiri vegna hækkunar íbúðaverðs,“ segir í svari Bjarna.
Í svari ráðherra er því einnig komið á framfæri að ekki verði séð að þörf sé á slíkum stuðningi, þar sem stjórnvöld hafi þegar kynnt aðgerðir til að draga úr áhrifum verðbólgu á viðkvæma hópa, sem hafi þann tilgang að minnka hættu á efnislegum skorti hjá þeim tekjulægstu og eignaminnstu.
Í svari Bjarna er einnig tiltekið það sé „ástæða til að benda á það í þessu samhengi“ að fjárhagsstaða heimilanna hafi almennt styrkst síðustu ár þvert á tekjuhópa og að fjárhagsstaða fólks sem býr í eigin húsnæði hafi styrkst sérstaklega vegna mikillar hækkunar íbúðaverðs.
„Vanskil íbúðalána eru í lágmarki. Það sama á við um vaxtabyrði sem hlutfall af ráðstöfunartekjum samkvæmt nýjustu tölum þótt breyting gæti orðið þar á næstu misseri. Telja má að hækkun vaxtabóta, sérstaklega með hækkun eignaskerðingarmarka, myndi því ekki aðeins ganga gegn stefnu hagstjórnar heldur einnig því sjónarmiði að beina bótagreiðslum og húsnæðisstuðningi þangað sem hans er þörf,“ segir í svari Bjarna.
Vaxtabótakerfið hefur farið minnkandi undanfarin ár, vegna ákvarðana stjórnvalda, sem hafa beint húsnæðisstuðningi hins opinbera í aðra farvegi. Hrapaði fjöldi þeirra framteljenda sem fengu vaxtabætur úr 45 þúsundum árið 2013 niður í rúmlega 15 þúsund árið 2020.
Þetta hefur verið gagnrýnt, meðal annars í Kjarafréttum Eflingar fyrr á þessu ári. Þar sagði að vaxtabótakerfið hefði í reynd verið skorið niður, án þess að önnur úrræði sem gögnuðust þeim þorra launafólks sem áður fékk vaxtabætur hafi verið kynnt til sögunnar.
„Þó hlutdeildarlán og niðurgreiðslur á leiguhúsnæði láglaunafólks séu ágætar viðbætur við kerfið þá gagnast þær svo fáum að ekki sér högg á vatni í þeim vanda sem fyrir er. Að bjóða launafólki að nota séreignar lífeyrissparnað sinn í stað vaxtabóta er heldur ekki kjarabót. Þá leið hefði hins vegar mátt réttlæta ef vaxtabæturnar hefðu haldið sér áfram,“ sagði í Kjarafréttum, sem eru á ábyrgð Stefán Ólafssonar sérfræðings hjá Eflingu stéttarfélagi.
Ekki nein áform sem stendur um að lækka eða afnema stimpilgjöld
Þingmaðurinn Ásthildur Lóa, sem er auk þingstarfa sinna formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, beindi einnig þeirri spurningu til fjármála- og efnahagsráðherra hvort til greina kæmi að lækka álagningarhlutfall stimpilgjalda til að mæta hækkun fasteignamats um næstu áramót, eða jafnvel afnema stimpilgjöld sem fylgja fasteignaviðskiptum.
Stimpilgjöld eru 0,8 prósent af fasteignamati eigna, en 0,4 prósent fasteignamats fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta skipti. Þessi gjöld munu því taka sambærilegum hækkunum og fasteignamat íbúðareigna, sem mun, eins og áður var vikið að, hækka um 23,6 prósent að meðaltali um komandi áramót.
„Eins og stendur liggja ekki fyrir áform um að lækka eða afnema stimpilgjöld til að mæta hækkun fasteignamats um næstu áramót,“ segir í svari ráðherra.