31 einstaklingur hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi það sem af er september, eða tæplega þrír á hverjum degi. Rauði krossinn segir frá þessu á vef Morgunblaðsins.
185 manns hafa því sótt um hæli á Íslandi það sem af er ári. Allt árið í fyrra sóttu 175 um hæli, sem þótti þó mikill fjöldi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ræddi um flóttamannamál í Vikulokunum á Rás 1 í dag. Þar upplýsti hann að Ólöf Nordal innanríkisráðherra mun funda með innanríkisráðherrum annarra Evrópuríkja um ástandið á mánudaginn. Ólöf er nú stödd á Vestfjörðum en á fundi sem hún átti á Patreksfirði fyrr í dag kom fram að fjölgun hælisleitenda hefði verið 65% milli ágúst í fyrra og í ár. 49 sóttu um hæli á Íslandi í ágúst síðastliðnum.
Bjarni sagðist telja það óumflýjanlegt að Ísland taki á móti fleiri flóttamönnum en ráðgert hefur verið. „Það væri eitthvað mjög bogið við það ef Ísland ætlaði eitt allra landa í Evrópu, ætlaði ekki að gera neina breytingu og taka ekki með nokkrum hætti tillit til þess neyðarástands sem hefur komið upp.“
Hann sagðist líta svo á að annars vegar væri verið að fást við neyðarástand, sem þó gæti varað í langan tíma, og hins vegar væri það spurning um endurskoðun á langtímastefnu Íslands í málinu. „Þetta mun þýða að við tökum á móti fleiri hælisleitendum, þó ekki væri nema vegna þess að umsóknum er að fjölga svo gríðarlega.“
Hann sagði líka að finna þyrfti jafnvægi í því að taka á móti fleiri flóttamönnum og einnig þess sem liti að frekari stuðningi við stofnanir sem eru á vettvangi.„Við getum sett meiri fjármuni þar og þannig skipt máli á vettvangi.“ Hann nefndi t.d. Rauða krossinn og Sameinuðu þjóðirnar.
„Ég tel alveg augljóst að við munum þurfa að gera meira en við höfum gert ráð fyrir á undanförnum árum að kæmi til Íslands. Hvar mörkin eru í því er ekki gott að segja núna [...] en það er alveg augljóst að við þurfum að gera meira hér.“