Starfandi fólki fjölgaði töluvert á síðasta ársfjórðungi og er fjöldi þeirra nálægt því að vera jafnmikill og hann var áður en faraldurinn byrjaði. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála Seðlabanka Íslands, sem var gefið út í morgun.
Samkvæmt heftinu fjölgaði störfum mest í ferðaþjónustu, en samhliða fjölguninni jókst atvinnuþátttaka einnig og er hún nú orðin áþekk því sem hún var í byrjun síðasta árs. Þó er hlutfall starfandi 2,5 prósentum lægra en það var þá, þar sem fólki á vinnumarkaði hefur fjölgað.
Ráðningastyrkir mikilvægir
Ráðningarstyrkir stjórnvalda virðast hafa spilað stórt hlutverk í minnkun atvinnuleysis, en samkvæmt Seðlabankanum var að jafnaði um helmingur afskráninga af atvinnuleysisskrá vegna þeirra. Bankinn áætlar að atvinnuleysi hefði verið um 2,5 prósentustigum hærra ef þeirra hefði ekki notið.
Samhliða þessu hefur langtímaatvinnuleysi einnig minnkað, en Seðlabankinn segir þó að það sé enn í hærra lagi. Um 2,6 prósent af vinnumarkaðnum eru skráðir sem langtímaatvinnulausir, sem sé svipað og það varð mest í kjölfar síðustu fjármálakreppu.
Erfiðara að leiða saman fyrirtæki og starfsmenn
Seðlabankinn segir mikinn vilja vera til staðar hjá fyrirtækjum að ráða til sín starfsfólk og bendir á niðurstöður kannana sem sýna að stór hluti stjórnenda telja fyrirtækin sín búa við starfsmannaskort. Í einni slíkri könnun svaraði þriðjungur stjórnenda að fyrirtæki þeirra væru í vanda með að mæta óvæntri eftirspurn.
Samkvæmt Seðlabankanum hefur geta vinnumarkaðarins til að leiða saman atvinnuleitendur og fyrirtæki minnkað, sem lýsir sér í háu atvinnuleysi samhliða miklum fjölda lausra starfa. Bankinn bindur þó vonir sínar við að það dragi aftur úr þessari óskilvirkni á vinnumarkaðnum á næstunni þar sem störfum fjölgar mikið í ferðaþjónustunni og skráð atvinnuleysi nálgast á sama stig og fyrir heimsfaraldurinn.