Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins segist vera mikill stuðningsmaður þess að selja Íslandsbanka en viðurkennir að hún hafi orðið svekkt þegar hún las lista yfir þá sem fengu að kaupa hlut í Íslandsbanka í nýlegu útboði Bankasýslunnar.
Þetta kom fram í máli þingmannsins undir liðnum störf þingsins í morgun.
„Mér fannst það mikilvægt að ríkið ætti ekki tvo af þremur viðskiptabönkum í landinu. Þess vegna hef ég stutt það ferli eindregið. Mér fannst takast ofboðslega vel til í fyrsta útboðinu þegar stór hluti Íslendinga hafði tækifæri til að setja sparnað sinn í fjárfestingu í Íslandsbanka. Ég held líka að það sé mikilvægt fyrir hlutabréfamarkað á Íslandi að almenningur hafi tök á að fjárfesta í eignum eins og Íslandsbanka,“ sagði hún í upphafi ræðu sinnar.
Hélt að þau væru fyrst og fremst að leita eftir stórum og öflugum fjárfestum
Bryndís situr í fjárlaganefnd og sagðist hún þar af leiðandi hafa fengið allar þær upplýsingar og gögn sem þeim voru send varðandi seinni hlutann.
„Ég verð að viðurkenna að ég er svekkt þegar ég les lista yfir þá sem hafa fengið að kaupa í þessu ferli. Ég stóð í þeirri meiningu að við værum fyrst og fremst að leita eftir stórum og öflugum fjárfestum sem ætluðu að vera þarna til lengri tíma. Þegar ég fer svo að lesa gögnin þá átta ég mig á því að það er ekkert sem stendur þar beinum orðum að svo eigi að vera. Ég naga mig sjálfa í handarbökin fyrir að hafa ekki spurt þeirrar spurningar og ég ímynda mér að við séum fleiri í þessum sal sem höfum gert það,“ sagði hún.
Þingmaðurinn sagðist þó engu að síður sannfærð um að það væri rétt ákvörðun að selja Íslandsbanka. „Ég er líka sannfærð um það, og það er mikilvægt að við þingmenn höldum því til haga, að regluverkið í kringum bankakerfið okkar er gott og hefur tekið miklum breytingum á síðasta áratug. Það er hárrétt ákvörðun hjá fjármálaráðherra að óska eftir því að Ríkisendurskoðun endurskoði þetta ferli vegna þess að það er traust og trúverðugleiki sem skiptir mestu máli. Þegar við seljum ríkiseignir þá þarf það ávallt að vera í gagnsæju og sanngjörnu og réttlátu ferli og því miður höfum við ekki fengið svör við öllum okkar spurningum. Það er því nauðsynlegt að fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og þingið allt fái svar við þeim spurningum sem út af standa,“ sagði hún að lokum.
„Hvaða rugl er þetta?“
Guðbrandur Einarsson þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd mótmælti þessum orðum Bryndísar undir liðnum fundarstjórn forseta nokkru seinna og sagði að hann yrði alltaf meira og meira hissa eftir því sem þessu máli vindur fram.
„Ég er bara mjög hissa á því að sjá hér nefndarmenn í fjárlaganefnd koma hér upp og fleygja sér á sverðið. Við vorum aldrei beðin um það að semja reglur sem næðu utan um söluna. Það var bara engin beiðni um það. Fyrir okkur var bara kynnt aðferð sem átti að nota sem kölluð er tilboðsleið.
Það er búið að ákveða fyrir löngu síðan að ráðherrann geti selt þennan banka. Við vorum bara beðin um álit á því. Punktur. En að hlusta á þessa umræðu hér að það eigi að fara að gera fjárlaganefnd og þingið að einhverjum sökudólgi í málinu: Hvaða rugl er þetta?“ spurði Guðbrandur.