Þriggja mánaða frestur til að samþykkja ráðstöfun leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum rann út á miðnætti. Af þeim hópi sem gat samþykkt hana frá 23. desember 2014 samþykktu 99,4 prósent ráðstöfun leiðréttingar sinnar. 553 einstaklingar samþykktu hana ekki. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Þar segir einnig að 3,9 prósent umsækjenda eigi eftir að fá sínar niðurstöður birtar. "Þessar umsóknir tengjast m.a. dánarbúum, uppfylla ekki skilyrði til leiðréttingar eða vandkvæði eru við að tengja heimilissögu eða lán við umsækjendur. Unnið er að því hjá ríkisskattstjóra að leysa úr þessum umsóknum og er stefnt að því að því verði lokið nú á vormánuðum."
Til viðbótar við leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum var fólki gefin kostur á því að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði inn á húsnæðislán skattfrjálst. Í gær höfðu 33.300 einstaklingar sótt um að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði með þessum hætti.
Allt að 80 milljarðar króna
Samkvæmt leiðréttingunni verða allt að 80 milljarðar króna greiddir til afmarkaðs hóps sem fellur innan skilgreiningar ríkisstjórnarinnar á því að hafa orðið fyrir forsendubresti vegna hækkandi verðbólgu frá byrjun árs 2008 og fram til loka árs 2009. Greiðslurnar koma úr ríkissjóði sem innheimtir á móti bankaskatt á viðskiptabanka og þrotabú föllnu bankanna til að mæta þeim kostnaði.
Samkvæmt þessari leið munu þau íslensku heimili sem fá skuldaniðurfellingu fá allt að fjórar milljónir króna hvert inn á höfuðstól lána sinna og fá þá upphæð greidda á næstu árum.