Lítill sem enginn stuðningur er við það að fjármögnun Landspítalans sé á hendi annarra en ríkisins. Þrír af hverjum fjórum aðspurðum telja að ríkissjóður eigi að fjármagna spítalann að fullu. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar sem Viðskiptaráð lét gera á viðhorfi almennings til fjármögnunar stofnana og embætta á Íslandi.
Eitt prósent svarenda sögðu að þeir teldu að fjármögnun Landspítalans ætti að vera að litlu eða engu leyti úr ríkissjóði. 2,4 prósent sögðust telja að ríkið ætti að fjármagna spítalann til helmings. 22,5 prósent telja að ríkissjóður eigi að fjármagna spítalann að mestu leyti. Langflestir, eða 74 prósent, vilja að ríkið fjármagni spítalann að öllu leyti.
815 voru spurðir í könnuninni og svarhlutfallið við spurningunni var 94,6 prósent. Hlutfall þeirra sem vilja að ríkið fjármagni spítalann að mestu eða öllu leyti er lægst hjá yngsta aldurshópnum, undir 25 ára, en þar er það 92,5 prósent. Þá er minnstur stuðningur við fjármögnun ríkisins meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, 90,9 prósent, og meðal Pírata, 91,6 prósent.
Meirihluti vill fjármagna lögreglu, Ríkisútvarp og Háskóla Íslands
92,2 prósent aðspurðra vilja að ríkið fjármagni starfsemi lögreglunnar að öllu eða miklu leyti. 1,2 prósent töldu að ríkið ætti ekki að fjármagna lögregluna að neinu leyti eða að litlu leyti.
55 prósent svarenda sögðu að ríkið ætti að fjármagna Ríkisútvarpið að öllu eða mestu leyti, en 26,8 prósent að litlu eða engu leyti. Talsverður munur var á svörum eftir aldri, stjórnmálaskoðunum og menntunarstigi. Þeir sem eru menntaðri eru hlynntari ríkisfjármögnun RÚV og kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru andvígastir því að ríkið fjármagni RÚV.
Þá sögðust 71,1 prósent vilja að ríkið fjármagni starfsemi Háskóla Íslands að öllu eða miklu leyti. Aðeins 7,5 prósent vilja að ríkið komi lítið eða ekkert að fjármögnun HÍ, og 21,4 prósent vilja að ríkið fjármagni skólann um helming.
Í aðdraganda Viðskiptaþings lét Viðskiptaráð gera skoðanakönnun um fjármögnun hinna ýmsu stofnana og embætta. Könnunina í heild sinni má sjá hér.