Uppbyggingin í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Reykjavík, hefur verið hröð og mikil, og styttist nú óðum í að mörg ný hótel opni. Á næstu tveimur árum verða hótel á Höfðatorgi, sem langt er komið í byggingu, við Laugaveg og við Hörpu, búin að bætast við allt það sem fyrir er. Svo eitthvað sé nefnt.
Þá eru ótaldar margar aðrar byggingar og framkvæmdir.
Líklegt er að fjöldi ferðamanna muni halda áfram að aukast á næstunni, og gæti tala ferðamanna verið komin upp í 1,5 milljón strax á næsta ári.
Það sem mikilvægt er, að landsmenn átti sig þegar kemur að ferðaþjónustunni, er hvert meginaðdráttaraflið er fyrir ferðamenn. Það er íslensk náttúra. Hana er hægt að meta til fjár, þegar að þessu kemur, en umfram allt þarf að bera virðingu fyrir henni og umgangast hana þannig.
Ekki síst þess vegna, ættu fjárfestar að horfa jafnvel meira en þegar hefur verið gert, út fyrir höfuðborgarsvæðið þegar kemur að uppbyggingu. Mörg hundruð þúsund ferðamenn ferðast vítt og breitt um landið á hverju ári, og það eru augljós sóknarfæri í því að bæta þjónustu víða, þó grettistaki hafi nú þegar verið lyft. Eignaverð er víða lágt, t.d. húsnæði, og vel hægt að sjá fyrir sér, að fjárfestingar í ýmsu því sem styrkt getur ferðaþjónustu í ýmsum minni sveitarfélögum landsins geti reynst skynsamlegar fjárfestingar þegar upp er staðið. Vel heppnuð og metnaðarfull uppbygging á Siglufirði og Húsavík er dæmi um þetta.