Svíar hafa hætt rannsókn á nokkrum af ásökununum á hendur Julian Assange, stofnanda Wikileaks, því kærufrestur er að renna út. Bretar segja Ekvador hafa hindrað framgang réttvísinnar með því að hýsa Assange í sendiráði sínu í London. Sky News greinir frá þessu.
Saksóknari í Svíþjóðhefur haft Assange til rannsóknar fyrir meinta nauðgun og kynbundið ofbeldi sem á að hafa átt sér stað í ágúst 2010. Nauðgunarrannsókninni hefur verið hætt. Assange hefur haldið sig í sendiráði Ekvador síðan í júní 2012 þegar Bretar samþykktu að framselja hann til Svíþjóðar.
Hugo Swire, undirráðherra í utanríkisráðuneyti Breta, hefur staðfest að sendiherra Bretlands í Quito, höfuðborg Ekvador, muni leggja formleg mótæli fyrir stjórnvöld þar í landi. Bretar séu skyldugir til að framselja Assange.
Sænski saksóknarinn lét hafa eftir sér að Julian Assange hafi „forðast ákæruvaldið með því að leita hælis í sendiráði Ekvador.“ Jen Robinson, einn lögfræðinganna í teymi Assange, hafnar þessum ásökunum Svía og segir skjólstæðing sinn hafa verið tilbúinn til að bera vitni í sendiráðinu. Búið var að semja um dagsetningu yfirheyrslu í London í júní síðastliðnum en sænsk yfirvöld hættu við á síðustu stundu.
Assange hefur ekki hætt sér út fyrir lóð sendiráðsins í London af ótta við að vera framseldur til Svíþjóðar. Þaðan telur hann sig verða framseldan til Bandaríkjanna fyrir að birta leynigögn á vef Wikileaks.