Nautakjöt hefur hækkað langmest allra kjöttegunda á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt mánaðarlegum mælingum Hagstofunnar á ýmsum vörutegundum og þjónustu. Á meðan nautakjöt hefur hækkað um nær átta prósent hefur lambakjöt hækkað um 1,4 prósent og svínakjöt lækkað um rúm tvö prósent. Eins og kunnugt er hefur verðbólga á þessu tímabili, það er almenn hækkun verðlags, verið afar lág eða aðeins 0,8 prósent.
Ónægt framboð á innlendu nautakjöti og álagðir tollar á innflutt nautakjöt ýta undir verðhækkanir.
Á sama tíma hafa íslenskir kúabændur átt í mestu erfiðleikum með að anna eftirspurn neytenda. Framleiðsla á nautakjöti, það er slátrun kálfa, ungnauta og kúa, dróst saman um heil 14,4 prósent milli áranna 2013 og 2014. Í fyrra voru framleidd tæplega 3,5 tonn af nautakjöti samanborið við tæplega 4,1 tonn árið 2013.
Til þess að svara eftirspurn neytenda hafa stjórnvöld tvívegis gefið út reglugerð um úthlutun á opnum tollkvóta nautakjöts, fyrst í upphafi árs 2014 og aftur síðastliðið haust. Það þýðir að leyfilegt hefur verið að flytja inn erlent nautakjöt til landsins. Álagðir tollar á hvert innflutt kíló nema á bilinu 225 krónum til 658 krónum.
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands Kúabænda, skrifaði um stöðu mála á vefsíðu sambandsins í febrúar síðastliðnum. Þar kemur fram að á grundvelli þessara reglugerða hafi 1.047 tonn af nautakjöti verið flutt til landsins. Að stærstum hluta hafi það verið í formi hakkefnis, eða 752 tonn en einnig 111 tonn af lundum, tæp 80 tonn af hryggvöðvun og rúm 86 tonn af lærvöðvðum. Af því megi áætla að hlutdeild innflutts nautakjöts á markaði sé um 25 til 30 prósent.
Óbreytt verð til bænda frá sumri
Baldur Helgi segir í samtali við Kjarnann að nautakjötsverð til bænda hafi verið óbreytt frá því í júní 2014. Á sama tíma hafi smásöluverð á nautakjöti hækkað um 4,6 prósent. „Hækkun á smásöluverði nautakjöts undanfarna mánuði rennur því annað en til bænda,“ segir hann.
Hann að sambandið hafi að vonum áhyggjur af því að ekki takist að sinna vaxandi markaði með innlendri framleiðslu. Til þess að svo megi verða þurfi bændur öflugri og hagkvæmari nautgripi.
„Þrátt fyrir að horfur séu á að framleiðslan aukist á næstu misserum, er ljóst að sú aukning þarf að vera mjög mikil til að mæta þeirri ört vaxandi eftirspurn sem á sér stað hér á landi. Það er því brýnna en nokkru sinni, að tillögur Landssambands kúabænda um eflingu holdanautabúskapar nái fram að ganga svo fljótt sem auðið er. Það er bjargföst skoðun samtakanna að í honum felist tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskum landbúnaði. Betri afkoma, aukin fjárfestingageta og meiri arðsemi eru einnig grundvallar forsendur fyrir aukinni nautakjötsframleiðslu. Heildarhagsmunir landbúnaðarins felast í því að sinna innlendum markaði með hagkvæmri, innlendri búvöruframleiðslu,“ segir Baldur Helgi í pistlinum á vefsíðu sambandsins.