Nemendum í framhaldsskólum landsins sem læra erlend tungumál, fækkaði hlutfallslega úr 74 prósentum skólaárið 2011 til 2012, niður í 72,1 prósent skólaárið 2013 til 2014. Það er svipað hlutfall og skólaárið 2007 til 2008. Þetta kemur fram í niðurstöðum úr gagnasöfnun Hagstofu Íslands um nemendur í framhaldsskólum sem lærðu erlend tungumál.
Þar kemur sömuleiðis fram að nemendur í spænsku urðu í fyrsta skipti fleiri en nemendur í þýsku skólaárið 2012 til 2013. Skólaárið 2013 til 2014 lærðu 4.150 nemendur spænsku, 3.873 þýsku og 1.792 frönsku í framhaldsskólum. Sem fyrr læra flestir framhaldsskólanemendur ensku, og voru þær tæplega fimmtán þúsund talsins á síðasta skólaári, eða um 60 prósent framhaldsskólanemenda. Næstflestir nemendur læra dönsku, eða rúmlega sjö þúsund talsins, enda eru þessi tvö tungumál skyldunámsgreinar fyrir flesta nemendur í framhaldsskólum.
Framhaldsskólanemendur læra í fyrsta skipti arabísku
Í fyrsta sinn frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands árið 1999 lærðu íslenskir framhaldsskólanemendur arabísku, skólaárið 2012-2013, þegar 20 nemendur lærðu tungumálið. Skólaárið 2012-2013 komu líka fram í fyrsta skipti í gagnasöfnun Hagstofunnar nemendur sem lögðu stund á færeysku, alls 37 talsins, og 21 nemandi skólaárið 2013-2014.