Verslun á netinu hefur tekið mikinn kipp á Íslandi, ef marka má könnun Hagstofunnar á netnotkun landsmanna árið 2014. Um 67 prósent netnotenda höfðu verslað á netinu á síðustu 12 mánuðum, samanborið við 57,6 prósent árið áður.
Hagstofan birti á föstudag skýrslu um tölvu- og netnotkun á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum 2014. Sem fyrr er Ísland nettengdasta þjóð álfurnnar. Í fyrra töldust 98,2 prósent íbúa til „netnotenda“, það eru þeir einstaklingar sem hafa notað internetið á síðustu þremur mánuðum.
Fjöldi þeirra sem versla varning og þjónustu í gegnum netið hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Árið 2010 var hlutfall þeirra sem versluðu á netinu undir 50 prósent allra netnotenda en var sem fyrr segir um 67 prósent á síðasta ári.
Netverslun hefur aukist meðal flestra aldurshópa, en þó minna eftir því sem fólk er eldra. Fólk á aldrinum 25 ára til 34 ára er duglegastur við að kaupa varning og þjónustu á netinu.
Af einstökum vörum og þjónustu þá er algengast að netnotendur versli aðgöngumiða á viðburði. Alls höfðu 75% þeirra sem höfðu verslað á netinu á síðustu tólf mánuðum keypt miða á viðburði. Þá keyptu fleiri tónlist og kvikmyndir í gegnum internetið, og hafa veitur á borð við Netflix og Spotify þar vafalaust áhrif. Á myndinni hér að ofan má sjá hversu stórt hlutfall þeirra sem versla á netinu hafa keypt tiltekin varning eða þjónustu og breytingar milli ára.
Nokkuð jafnt hlutfall er á milli kaupa frá Bandaríkjunum annars vegar og löndum Evrópusambandsins hins vegar. Athyglisvert er að skoða þróunina á kaupum frá fyrirtækjum utan Bandaríkjanna og ESB, en verslun þaðan um það bil tvöfaldaðist milli áranna 2013 og 2014. Í skýrslu Hagstofunnar er ekki skýrt hverju sætir, en til dæmis gæti fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína haft áhrif.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 29. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.