Nexpo verðlaunahátíðin verður haldin í fimmta skipti í mars, en tæknivefurinn Simon hefur tekið við hátíðinni af fyrirtækinu Silent. Simon mun annast framkvæmd hátíðarinnar í samstarfi við Kjarnann og Klak Innovit.
Líkt og fyrri ár verður vef- og markaðsfólk í fyrirrúmi á Nexpo, en því til viðbótar verður lögð sérstök áhersla á nýsköpun á Íslandi á verðlaunahátíðinni í ár.
Verðlaun verða veitt í átta flokkum, þar af tveimur nýjum flokkum: sprotafyrirtæki ársins verður valið og besti markaðsárangur sprotafyrirtækis sömuleiðis.
Aðrir verðlaunaflokkar eru vefhetjan, app ársins, vefur, herferð og stafrænt markaðsstarf ársins. Þá verður besta óhefðbundna auglýsing ársins verðlaunuð.
Tilnefningar til Nexpo eru opnar öllum og verður tekið á móti tilnefningum í lok febrúar hér á vefsíðu Kjarnans. Eftir að tilnefningar hafa borist mun dómnefnd fara yfir valið. Sigurvegari verður valinn í netkosningu og með atkvæði dómnefndar, sem vegur til helmings á móti netkosningunni.
Meðal þeirra sem hafa hlotið titilinn vefhetja Nexpo eru Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, og Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Báðir þóttu þeir hafa staðið sig vel á samfélagsmiðlum og náð til margra.