Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað hratt á Íslandi á síðustu vikum, þrátt fyrir að vera langt frá ferðamannafjöldanum á sama árstíma árið 2019. Þó hefur velta erlendra greiðslukorta aukist meira, sem eru vísbendingar um að meiri gjaldeyrir fylgi hverjum ferðamanni en áður. Ein möguleg útskýring á þessari þróun er hátt hlutfall breskra og bandarískra ferðamanna sem komið hafa til landsins á síðustu vikum.
Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu sem birtist á vef fjármálaráðuneytisins fyrr í dag. Samkvæmt henni hefur komuflug til Keflavíkur aukist mikið í mánuðinum og félögum sem hingað fljúga fjölgað, sérstaklega þeim sem fljúga frá Bandaríkjunum og Bretlandi.
Hins vegar virðist ansi langt í að fjöldi ferðamanna verði áþekkur fjöldanum sem kom hingað til lands á sama árstíma fyrir tveimur árum síðan, en samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu var fjöldi erlendra komufarþega um Leifsstöð í síðasta mánuði innan við 5 prósent af komufarþegum í apríl 2019.
Aftur á móti var aukningin í veltu erlendra greiðslukorta meiri milli mánaða líkt og sjá má á mynd hér að neðan. Í síðasta mánuði var veltan 20 prósent af heildarveltunni í apríl fyrir tveimur árum síðan, þrátt fyrir að erlendir ferðamenn hérlendis væru einungis 4,9 prósent af ferðamannafjöldanum í apríl 2019. Því var rúmlega fjórum sinnum meiri velta á hvern ferðamann í síðasta mánuði, miðað við sama tímabil fyrir tveimur árum síðan.
Samkvæmt fjármálaráðuneytinu hefur veltan haldið áfram að aukast á síðustu vikum og var hún orðin rúmlega 30 prósent af heildarveltunni um miðjan maí, miðað við sama tíma árið 2019. Á sama tíma er fjöldi komufarþega aðeins 9 prósent af heildarfjöldanum á sama tíma fyrir tveimur árum síðan.
Ráðuneytið segir það ekki enn vera ljóst hvort neyslan skýrist af lengri dvöl ferðamanna eða breytinga í samsetningu hóps komufarþeganna, en hærra hlutfall er nú af Bandaríkjamönnum, sem dvelja gjarnan meira og kaupa meiri afþreyingu, heldur en verið hefur áður. Verði hlutfall bandarískra og breskra ferðamanna hærra hér á landi í ár en áður hefur verið er búist við að meðalneysla á hvern ferðamann verði nokkuð meiri en fyrri ár, samkvæmt ráðuneytinu.