Ferðamenn frá Rússlandi, sem voru áður líklegir til að verja miklum fjármunum hérlendis, hafa á síðustu árum dregið úr neyslu sinni, ef miðað er við aðra ferðamenn. Neysla hvers rússnesks ferðamanns var að meðaltali 13 prósentum minna en meðalneysla ferðamanna frá öðrum þjóðernum í fyrra. Þetta kemur fram þegar tölur frá Rannsóknasetri verslunarinnar eru bornar saman við farþegatölur frá Ferðamálastofu.
Samkvæmt tölunum hafa Rússar verið lítill hluti af ferðamönnum hérlendis, en þeir hafa verið innan við eitt prósent af heildarfjöldanum á hverju ári síðustu níu árin. Aftur á móti voru þeir neysluglaðari en aðrir framan af, en árið 2013 varði hver rússneskur ferðamaður að meðaltali 180 þúsundum króna hér á landi, á meðan aðrir ferðamenn vörðu að meðaltali um 116 þúsundum króna.
Á síðustu árunum fyrir heimsfaraldurinn fór svo ferðamönnum frá Rússlandi að fjölga, en þeir voru mest rúmlega 16 þúsund talsins árið 2019. Samhliða því hefur neysla á hvern ferðamann hins vegar dregist saman, miðað við tölur um kortaveltu þeirra, en fyrir þremur árum síðan mátti búast við að hver rússneskur ferðamaður eyddi að meðaltali 140 þúsundum króna hérlendis. Þróunina má sjá á mynd hér að neðan.
Á síðustu tveimur árum hefur neysla hvers ferðamanns svo aukist töluvert, en í fyrra mátti búast við að hver þeirra eyddi um 188 þúsundum króna á landinu. Neysla rússneskra ferðamanna í fyrra var hins vegar aðeins um 162 þúsund krónur, líkt og myndin að ofan sýnir.