Ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að viðræður Íslendinga við Evrópusambandið væru komnar á endastöð hafa vakið athygli víðar en á Íslandi. Í ræðu sinni á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina sagði Bjarni meðal annars að „þær viðræður sem fyrri stjórn setti af stað eru komnar á endastöð. Aðdragandi málsins á Alþingi, sýndarviðræðurnar síðasta kjörtímabil og viðskilnaður vinstri stjórnarinnar við málið var með þeim hætti að það er rétt að hreinsa borðið og hefja umræðuna á nýjum og réttum forsendum.“
Í morgun birti bloggarinn Paul Staines, sem skrifar undir nafninu Guido Fawkes og er yfirlýstur hægrimaður, ummæli eftir Bjarna í flokknum ummæli dagsins (e. Quote of The Day). Hann gerir reyndar þau mistök að halda Bjarna vera utanríkisráðherra. Guido Fawkes bloggið er mjög mikið lesið og var meðal annars lýst af breska dagblaðinu The Daily Telegraph sem „einni af mest leiðandi pólitisktu bloggsíðunum“ í Bretlandi árið 2007.
Síðar í dag birti Guido Fawkes síðan ummælin á Twitter. Þar tók Nigel Farage, leiðtogi UKIP-flokksins í Bretlandi, sem er mjög andsnúinn Evrópusambandinu, færsluna upp og endur-twittaði henni.