Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, UKIP, náði ekki þingsæti í Suður-Thanet. Þetta varð ljóst nú í morgun og í kjölfarið tilkynnti hann að hann hygðist segja af sem formaður flokksins.
Fyrir kosningarnar sagði Farage að ef hann næði ekki þingsætinu myndi hann segja af sér „innan tíu mínútna“. Það gerði hann hins vegar ekki í ræðu sinni um leið og úrslitin voru kynnt, heldur hélt stuttan blaðamannafund um klukkustund seinna þar sem hann tilkynnti þetta.
Hann sagðist vera maður orða sinna og því ætlaði hann að segja af sér embætti. Hins vegar sagðist hann ætla að íhuga stöðu sína í sumar og mögulega muni hann bjóða sig aftur fram til embættisins í haust. Hann ætlar að taka sér frí í allt sumar, í fyrsta skipti frá árinu 1993 að eigin sögn.
Það var Craig Mackinlay, frambjóðandi Íhaldsflokksins, sem hlaut flest atkvæði og þar með þingsætið í kjördæminu. Hann hlaut tæplega 19 þúsund atkvæði og 38 prósent, en Farage hlaut rúmlega 16 þúsund atkvæði, eða 32 prósent.
Þetta þýðir að UKIP fær bara eitt þingsæti í neðri deild breska þingsins í Westminster, þrátt fyrir að hafa hlotið um 13 prósent atkvæða.