Kjötvinnslufyrirtækið Norðlenska hefur keypt allar fasteignir útgerðarfélagsins Vísis hf. á Húsavík. Um er að ræða frystigeymslur og vinnslusal fyrirtækisins, skrifstofur, gistiheimili og geymslur, alls um 5 þúsund fermetra. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, og Pétur Hafsteinn Pálsson, forstjóri Vísis, eru skrifaðir fyrir en samkomulag vegna viðskiptanna var undirritað í dag. Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarformaður Norðlenska, og Pétur Hafsteinn gengu frá samkomulaginu í dag (sjá mynd).
Ákvörðun um sölu fasteignanna var tekin í kjölfar ákvörðunar Vísis um að flytja starfsemi sína frá Húsavík til Grindavíkur, en forsvarsmenn Vísis lögðu áherslu á að áfram yrði atvinnurekstur í húsnæðinu, og hófust viðræður við Norðlenska fljótlega eftir að ákvörðun um flutning lá fyrir. Eins og fram hefur komið var ákvörðun Vísis um flutning á starfsemi til Grindavíkur, einnig á Þingeyri og Djúpavogi, íbúum mikið áfall og var mótmælt harðlega.
„Með kaupunum mætir Norðlenska þörf fyrirtækisins fyrir aukið frystirými á Húsavík en um leið skapast tækifæri fyrir frekari starfsemi fyrirtækisins á staðnum sem verða tekin til skoðunar á næstu vikum og mánuðum. Starfsmannastjóri Norðlenska mun í framhaldi af kaupunum ræða við þá starfsmenn sem ekki þáðu störf hjá Vísi í Grindavík um möguleika þeirra til vinnu hjá félaginu“ segir í tilkynningu frá Norðlenska vegna kaupanna.
Norðlenska er eitt stærsta og öflugasta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði kjötvöru. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á Akureyri, Húsavík, í Reykjavík og á Höfn í Hornafirði. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Akureyri en þar er einnig stórgripasláturhús og kjötvinnsla. Á Húsavík er sauðfjársláturhús og kjötvinnsla. Fyrirtækið er ennfremur með söluskrifstofu á höfuðborgarsvæðinu og sauðfjársláturhús á Höfn.
Hjá Norðlenska eru um 190 heilsársstörf, þar af eru 45 heilsársstörf á Húsavík.