Ýmsir munir hins norska Anders Behring Breivik verða settir á sýningu í Osló, sem verður opnuð á miðvikudaginn eftir viku, þegar fjögur ár verða liðin frá hryðjuverkum Breikvik í Útey og Osló. Þetta verður gert af virðingu við fórnarlömbin, þá sem lifðu af og aðstandendur.
Meðal þess sem verður sýnt eru leifar sprengjunnar sem sprakk í bíl fyrir utan skrifstofur stjórnarráðsins í Osló, auk þess sem hlutar úr bilnum verða þar. Sprengjan varð átta manns að bana. Þá munu fölsuðu skilríkin og lögreglumerkið sem hann notaði til sýnis, sem og munirnir í tösku sem hann tók með sér til Úteyjar, þar sem hann myrti 69 manns.
Jan Tore Sanner, innanríkisráðherra Noregs, segir mikilvægt að sett sé upp eins konar upplýsinga- og lærdómsmiðstöð um það sem gerðist þann 22. júlí 2011, svo að bæði ungir og aldnir Norðmenn geti glöggvað sig á því sem gerðist.
„Þekking er mikilvægasta vopnið okkar í baráttunni gegn ofbeldi, hatri og öfgum,“ segir hann í viðtali við Aftenposten. „Þess vegna viljum við sýna nákvæmlega hvað gerðist og skiljum engan hluta sögunnar eftir.“
Það er tækniháskóli Noregs (NTNU) sem hannaði þessa upplýsingamiðstöð sem verður staðsett á fyrstu hæð byggingarinnar sem sprengjan sprakk við. Sanner segir að fyrir alla sem lifðu atburðina fyrir fjórum árum verði sýningin eflaust sársaukafull. „En við verðum að komast í gegnum þennan sársaukafulla hluta sögunnar á heiðarlegan hátt. Miðstöðin sýnir það sem raunverulega gerðist.“
Gert er ráð fyrir því að upplýsingamiðstöðin verði opin í að minnsta kosti fimm ár.