Norður-kórea missti sambandið við internetið í gærkvöldi. Margir fjölmiðlar í Bandaríkjunum, þar á meðal New York Times og Quartz, veltu því upp í kjölfarið hvort Bandaríkin beri ábyrgð á því að landið missti samband við netið, en netárás sem gerð var á Sony á dögunum hefur verið rakin til yfirvalda í Norður-Kóreu. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt netárásir sem þessar vera ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna, þær verði rannsakaðar og þeim síðan svarað.
Ekki er víst að margir hafi tekið eftir því að internetsambandið hafi rofnað í Norður-Kóreu, þar sem aðgengi fólks að því er verulega takmarkað og er notkun á því undir strangri ritstýringu yfirvalda.