Norðurál greiðir lægsta raforkuverðið til Landsvirkjunar af álframleiðendum á Íslandi, raforkuverð til Fjarðaráls er aðeins hærra og hæst er raforkuverðið til álversins í Straumsvík sem Rio Tinto Alcan rekur. Er þetta niðurstaða athugunar Ketils Sigurjónssonar sem haldið hefur úti Orkublogginu um langt skeið. Norðurál er rekið af Century Aluminium og Fjarðarál er rekið af Alcoa.
Ketill birti í gær ítarlega grein um raforkuverð Landsvirkjunar til álveranna þriggja á árunum 2005 til 2014. Í greininni segir að mjög lágt raforkuverð til Norðuráls og Fjarðaráls valdi því að meðalverð raforku til álvera á íslandi sé með því allra lægsta í heiminum. Ástæða þess að raforkuverðið sé hæst til álversins í Straumsvík er nýr raforkusamningur frá árinu 2010. Hann er ólíkur hinum samningunum sem gerðir hafa verið við álframleiðendur því verðið fyrir raforku er ekki tengt álverði heldur bandarískri neysluvísitölu. „Raforkuverðið til Straumsvíkur (RTA) er líka fremur hógvært. Og er t.d. talsvert mikið lægra en meðalverð raforku til álvera í Bandaríkjunum og er álíka eins og meðalverð á raforku til álvera í Afríku,“ segir Ketill einnig í færslunni.
Grafið hér að ofan er birt á Orkublogginu og sýnir meðalverð Landsvirkjunar á raforku til hvers og eins álveranna á tímabilinu 2005 til 2014. „Á grafinu er í öllum tilvikum sýnt meðalverð yfir hvert ár. Öll raforkuverð sem þarna eru sýnd og fjallað er um í þessari grein eru með flutningi.“ segir í greininni. Þar sést að álverið í Straumsvík greiðir hæsta raforkuverðið og nálgast 35 dollara fyrir hverja megawattsstund (MWst). „Árið 2014 greiddi Straumsvík verð sem var tæplega 45% hærra en orkuverðið sem Fjarðaál greiddi og nálægt 60% hærra verð en álver Norðuráls á Grundartanga greiddi.
Meðalverð Landsvirkjunar á hverri seldri MWst til álvera á Íslandi þetta sama ár (2014) var rétt rúmlega 26 USD. Sambærilegt verð til álvera í Afríku það ár var um 30% hærra,“ segir í greininni.
Ketill segir tvær meginskýringar á því hvers vegna meðalverð á raforku til álvera á Íslandi er ennþá lágt í alþjóðlegum samanburði. Helsta skýringin sé risasamningur sem gerður var við Alcoa (Fjarðaál) árið 2003, þegar samið var um verð töluvert langt undir meðalverði á raforku til álvera á þeim tíma. „Hin skýringin á umræddu lágu meðalverði hér er sú að raforkusamningar við Century Aluminum (Norðurál) draga meðalverðið hér líka niður (samningur Landsvirkjunar við Century er tvískiptur og er annars vegar frá 1997 og hins vegar frá 1999, en að auki eru HS Orka og OR/ON að selja raforku til Century). Eins og áður sagði, þá nýtur Norðurál (Century) lægsta raforkuverðsins af álverunum hér. Það eru sem sagt einkum raforkusamningarnir við þessi tvö álfyrirtæki, Alcoa og Century, sem draga meðalverðið hér ansið langt niður.
Það er athyglisvert að samningur Landsvirkjunar við Alcoa hljóðaði upp á svo til sama raforkuverð eins og kveðið er á um í samningi Landsvirkjunar við Century 1997/1999 - að teknu tilliti til breytinga á bandarískri neysluvísitölu (CPI). Þegar litið er til annarra orkusamninga sem gerðir voru við ný álver upp úr aldamótunum sést að þessi samningur Alcoa frá 2003 er fyrirtækinu óvenju hagstæður. Og mögulega tryggir hann að Alcoa sé þarna með í sínum höndum einhverja eftirsóttustu framleiðslueininguna í álbransanum öllum.“
Ketill segir upplýsingarnar sem fram koma í greininni um raforkuverð byggja á fjölmörgum gögnum úr ólíkum áttum. „Þar má nefna ársskýrslur og ársreikninga viðkomandi fyrirtækja, álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og skýrslur erlendra greiningar- og ráðgjafarfyrirtækja. Sum þessara gagna eru opinber, en önnur ekki. Í sumum tilvikum byggi ég á skýrslum sem líklega voru aldrei ætlaðar til opinberrar birtingar. Því þær eru sumar kyrfilega merktar sem trúnaðarmál. En eru engu að síður aðgengilegar hverjum þeim sem leitar eftir þeim. Samanburður á öllum þessum gögnum sýnir mjög gott samræmi, sem bendir til þess að þær ályktanir sem ég hef dregið um raforkuverðið séu ekki bara góð nálgun við hið raunverulega samningsverð, heldur afar nákvæmar.“
Greinina á Orkublogginu má lesa í heild hér.