Norrænu samstarfsráðherrarnir ákváðu á fundi sínum í Grænlandi í dag að loka upplýsingaskrifstofum Norrænu ráðherranefndarinnar í Norðvestur-Rússlandi um "óákveðinn tíma". Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Rússland ákvað að skilgreina skrifstofu nefndarinnar í Pétursborg sem útlenskur erindreki í Rússlandi, en sú ákvörðun var tekin 12. janúar síðastliðinn. Í skriflegu svari starfsmanns ráðherranefndarinnar við fyrirspurn Kjarnans um málið á sínum tíma sagði að í bréfi saksóknara í Pétursborg vegna þessa hefðu komið fram ásakanir um að nefndin stundaði pólitíska starfsemi í Rússlandi.
Samkvæmt rússneskum lögum ber félagasamtökum sem stunda pólitíska starfsemi, og eru fjármögnuð erlendis frá, að skrá sig sem útlenskan erindrekar. Skrifstofur ráðherranefndarinnar í Rússlandi hafa hins vegar haft stöðu frjálsra félagasamtaka frá því að hún var opnuð árið 1995.
Ekki forsendur til að reka skrifstofuna áfram
Í frétt á vef Norrænu ráðherranefndarinnar vegna þessa er haft eftir Carsten Hansen, danskur formaður norrænu samstarfsráðherranna, að ákvörðun Rússlands um að skilgreina skrifstofuna í Pétursborg sem útlenskan erindreka, eða "erlendan aðila", hafi valdið því að ákvörðunin um að hætta starfsemi hefur nú verið tekin. „Ríkisstjórnir norrænu landanna telja það óásættanlegt að halda starfseminni áfram sem erlendur aðili. Í augnablikinu eru ekki forsendur til þess að skrifstofan starfi áfram. Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar í Norðvestur-Rússlandi hefur það markmið að bæta tengsl og samskipti milli Norðurlanda og Norðvestur-Rússlands, og það getum við ekki gert sem erlendur aðili.“
Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, segir að nefndin hafi haft umfangsmikla starfsemi í Rússlandi. „Hún verður ekki lögð niður á einni nóttu heldur mun það útheimta mikla vinnu og endurskipulagningu yfirvalda, samstarfsaðila og starfsfólks.“
Ákvörðunin mun hafa áhrif á samtals tuttugu starfsmenn sem starfa á skrifstofunum í Norðvestur-Rússlandi.