Nýsköpunarfyrirtæki á Norðurlöndunum hafa frá áramótum aflað meira fjármagn heldur en þau gerðu allt síðasta ár. Þessi fyrirtæki hafa samtals fengið um 847,1 milljón dollara í fjármögnun, jafnvirði um 111 milljarða króna. Stærstur hluti fjármagnsins hefur farið til sænsku tónlistarveitunnar Spotify, alls um 350 milljónir dollara eða um 46 milljarðar króna. Næst á eftir kemur hið íslenska Verne Global, sem rekur gagnaver að Ásbrú í Reykjanesbæ. Félagið safnaði í byrjun árs um 13 milljörðum króna með hlutafjáraukningu.
Norrænni fréttamiðillinn The Nordic Web greinir frá þessu í dag og birtir samantekt á stærstu fjármögnunum það sem af er ári. Á listanum eru fjögur sænsk nýsköpunarfyrirtæki, fjögur dönsk fyrirtæki, eitt norskt og eitt íslenskt.
Listi The Nordic Web yfir fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja það sem af er ári.
Miklar fjárfestingar á árinu eru til marks um aukinn áhuga fjárfesta á norrænum nýsköpunarfyrirtækjum í tæknigeiranum. Í grein The Nordic Web er bent á að jafnvel þótt litið sé framhjá 350 milljón dala fjármögnun Spotify, þá er fyrsti helmingur ársins 2015 mun betri en sama tímabil 2014. Meðalstærð fjármögnunar hefur verið um 6,05 milljónir dollara í ár, jafnvirði um 800 milljóna króna, samanborið við 4,67 milljónir í fyrra. Alls hafa 83 norrænn nýsköpunarfyrirtæki sótt sér fjármagn á fyrstu fimm mánuðum ársins 2015.