Talsmenn norska hersins segja að það sé alveg skýrt að reikningur verði sendur til Íslands vegna þeirra 250 MP5-hríðskotabyssa sem Íslendingar hafa fengið frá honum. Samkomulag hafi orðið á milli aðila um að senda ekki slíkan reikning fyrr en í lok árs vegna efnahagsástandsins á Íslandi. Frá þessu greinir norska blaðið Dagbladet.
Stóra hríðskotubyssumálið er orðið fyrirferðamikið fréttamál í norskum fjölmiðlum. Þar er fullyrt að það hafi ollið stjórnarkrísu hjá íslensku ríkisstjórninni.
Verið að vopnavæða NATO-bandamann?
Málið hófst á því að DV sagði íslensku lögreglunni hafa keypt um 200 MP5 hríðskotabyssur frá Noregi. Það var síðar borið til baka af bæði fulltrúum ríkisstjórnarinnar og lögregluyfirvöldum sem sögðu byssurnar vera 150 og að þær hafi verið gjöf. Loks kom í ljós að það var í raun norski herinn sem hafði látið íslensku Landhelgisgæsluna hafa vopnin, fjöldi hríðskotabyssanna væri 250 og að gæslan hafi alls fengið um 310 vopn frá norska hernum frá árinu 2011. Þar af séu 150 fyrir lögregluna en 160 fyrir gæsluna. Fyrir tveimur dögum síðan sendi Landhelgisgæslan síðan frá sér tilkynningu, og opinberaði farmbréf, þar sem ítrekað var að um gjafir hafi verið að ræða.
Á vefsíðu Dagbladet í Noregi er fjallað ítarlega um málið og rætt við talsmann yfirmanns í norska hernum. Þar segir að það hafi vakið upp úlfúð meðal hluta almennings að verið væri að eyða fé í byssukaup á sama tíma og Ísland stæði frammi fyrir stórtækum efnahagslegum vanda á ýmsum sviðum. Í umfjölluninni er síðan rakið að því sé haldið fram að um gjafir sé að ræða og að Íslendingar hafi ekki, og muni ekki, greiða krónu fyrir þær. Á móti hafi það vakið upp spurningar um hvort það sé þá Noregur sem ýti á NATO-bandamann sinn Ísland til að vopnavæðast. Síðan er sagt frá því að nokkur hundruð manns hafi mótmælt vopnavæðingu lögreglu á föstudag og að stofnuð hafi verið Facebook-grúppa gegn henni sem sé nú með nálægt níu þúsund meðlimi.
„Við munum senda reikning“
Í umfjöllun Dagbladet segir að hin hörðu viðbrögð frá Íslandi hafi komið norska hernum í opna skjöldu. Sérstaklega að það sé sífellt verið að tala um að byssurnar margumræddu hafi verið gjöf. „Við munum senda reikning“, er haft eftir Bent- Ivan Myhre, talsmanni Haralds Sunde, yfirmanns í norska hernum sem er talinn ábyrgður fyrir því að gefa okkur byssur. Hann vísar síðan í að skrifað hafi verið undir samning um sölu á 250 MP5-hríðskotabyssum 17. desember í fyrra þar sem kaupverðið var 625 þúsund norskar krónur, um 11,5 milljónir íslenskar krónur. Þessi upphæð á að greiðast, segir Myhre.
Í umfjöllun Dagbladet er sagt að miðillinn hafi vitneskju um að norski herinn hafi aldrei sent reikning fyrir byssunum, þrátt fyrir að þær hafi verið afhentar fyrir átta mánuðum síðan. Þar segir einnig að slíkt þýði ekki að byssurnar hafi verið gjöf, heldur hafi samningsaðilar orðið sammála um, vegna efnahagsástandsins á Íslandi, að senda ekki reikninginn fyrr en í lok uppgjörsárs.