Norski lögreglustjórinn Arne Hammersmark geldur varhug við að norska lögreglan vopnavæðist frekar vegna hótanna ISIS samtakanna, betur þekkt sem Íslamska ríkið. Ekki sé hægt að nota óljósar hótanir hryðjuverkasamtakanna sem afsökun fyrir því að vopna almenna lögreglumenn. Norski fréttamiðillinn Dagbladet.no greinir frá málinu.
Norsk lögregluyfirvöld óskuðu þess á dögunum að almennir lögreglumenn yrðu vopnaðir eftir almennt orðaða hótun frá hryðjuverkasamtökunum ISIS. Stjórnvöld í Noregi féllust á beiðni lögregluyfirvalda og heimiluðu aukinn vopnaburð lögreglumanna til fjögurra vikna.
Óvanir vopnunum
Arne Hammersmark, lögreglustjóri í Gudbrandsdalen, gagnrýnir þetta mjög, að því er fram kemur í áðurnefndri frétt Dagbladet. Hann segir almenna lögreglumenn ekki þjálfaða til að bera skotvopn dags daglega, þeir séu vanir því að vera óvopnaðir og bregðast við aðstæðum í samræmi við það.
Ef vopnaðir einstaklingar hóti lögreglu eða öðrum sé því yfirleitt reynt að fara út fyrir mesta hættusvæðið og vopnum ekki beint nema aðstæður kalli á það. Gefa þurfi út sérstakt leyfi til vopnaburðar og lögreglumenn fái þannig tíma til að undirbúa sig andlega undir möguleg átök. Hammersmark óttast að lögreglumenn sem beri vopn daglega bregðist við slíkum aðstæðum með öðrum hætti, sem geti mögulega skapað meiri hættu fyrir þá og aðra.
Varhugaverð þróun, sem ekki verði svo glatt snúið við
Hammersmark segir að umræðan um almennan vopnaburð lögreglu þurfi að snúast um hversdagslegri hluti, eins og þá sem glími við geðræn vandamál eða glæpamenn, frekar en það sem hryðjuverkasamtök í útlöndum segi hverju sinni. Ekki sé hægt að nota hótanir þeirra sem afsökun til að vopna almenna lögreglumenn. „Við getum ekki tekið ákvörðun um vopnaburð út frá yfirlýsingum IS-liða í Írak eða Sýrlandi,“ er haft eftir Hammersmark í áðurnefndri frétt Dagbladet.
Þá telur Hammersmark að erfitt gæti reynst að snúa þróuninni við, það er að afvopna almenna lögreglumenn, verði vopnaburður þeirra aukinn.
Íslenska lögreglan vill vopn vegna hryðjuverkaógnar
Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við mbl.is á dögunum, að lögreglan á Íslandi geti ekki leyft sér að horfa fram hjá vaxandi hættu af hryðjuverkum í Evrópu, meðal annars vegna Íslamska ríkisins. Af þeim völdum vinni lögreglan nú að greinargerð til innanríkisráðherra um aukna þörf hennar fyrir vopn og búnað.
Eins og fram hefur komið ákvað Landhelgisgæslan að skila 250 MP5 hríðskotabyssum aftur til norska hersins, eftir að herinn fór fram á greiðslu fyrir byssurnar. Fram að því hafði Landhelgisgæslan fullyrt að um gjöf frá norskum hermálayfirvöldum væri að ræða.