Nú þegar nýr þingvetur er að hefjast verður ekki annað sagt en að stjórnarflokkarnir séu með vindinn í fangið þegar horft er á fylgi við flokkanna í skoðanakönnunum. Samkvæmt nýjustu könnun Gallup mælist fylgi stjórnarflokkanna samtals 34 prósent, litlu minna en Píratar mælast með, sem er tæplega 36 prósent.
Staða Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, sem mælast með 9,3 og 4,4 prósent, hlýtur síðan að vera forystu þessara flokka mikið áhyggjumál, eins og heyra hefur mátt á þeim í viðtölum.
Það sem er forvitnilegt nú þegar þingveturinn er að hefjast, er hvaða áhrif áætlun um losun fjármagnshafta mun hafa á fylgi við flokkanna. Ekki bara stjórnarflokkanna heldur ekki síðuar stjórnarandstöðuflokkanna. Ekki er víst að allir átti sig á því hversu gríðarlega mikil áhrif aðgerðaátlunin um losun hafta getur haft fyrir ríkissjóð og hagkerfið, en líklegt er að hún skili allt að 500 milljörðum króna til ríkisins, og opni fyrir frjálsari viðskipti.
Spurningin er hvort stjórnarflokkarnir muni njóta góðs af þessu, eða hvort almenningur muni frekar horfa til annarra atriða eftir því sem kosningar nálgast. Það eru mörg dæmi til um það, að góðar hagtölur ráði ekki úrslitum í kosningum heldur frekar önnur og sértækari mál.
Ekki er ólíklegt að komandi þingvetur muni einkennast af harðri baráttu um fylgið og einnig hvaða mál verði leiðandi í umræðunni hverju sinni. Stjórnarflokkarnir munu vafalítið reyna að nota þessa nokkur hundruð milljarða sem koma munu til ríkisins sem pólitískan byr í segl, og þá er spurning hvernig aðrir flokkar munu bregðast við...