Sænska tónlistarveitan Spotify opinberaði í dag upplýsingar um fjölda notenda þjónustunnar. Þeir eru orðnir 75 milljónir talsins og hefur fjölgað um 15 milljónir frá því fyrirtækið tilkynnti síðast um notendafjölda. Það var í janúar á þessu ári. Af 75 milljónum notenda greiða um 20 milljónir mánaðarlegt gjald. Notendur geta valið um greiða mánaðarlega tíu dollara gjald gegn því að losna við auglýsingar á milli laga.
Vöxtur Spotify hefur verið hraður. Í lok maí 2014 voru virkir notendur 40 milljónir talsins og þar af greiddu tíu milljónir notenda fyrir þjónustuna. Fjöldi þeirra sem greiða mánaðarlega hefur í dag meira en tvöfaldast, að því er fyrirtækið greinir frá á vefsvæði sínu í dag. Fjöldinn jafngildir því að einn nýr notandi skráir sig á Spotify á þriggja sekúndna fresti að meðaltali.
Spotify greinir einnig frá því að um 3 milljarðar dollara hafi á síðustu fimm árum verið greiddir í höfundarlaun. Það eru nærri 400 milljarðar króna miðað við gengi krónunnar í dag.
Þúsund milljarða virði
Erlendir fjölmiðlar, fréttastofa Bloomberg þeirra á meðal, hafa í dag greint frá nýju verðmati á Spotify. Sænska símfyrirtækið TeliaSonera eignaðist í dag 1,4 prósenta hlut í Spotify og greiddi fyrir hlutinn um 115 milljónir dollara. Samkvæmt þessum viðskiptum er virði Spotify nú um 8 milljarðar Bandaríkjadollarar, eða jafnvirði ríflega þúsund milljarða króna.
Spotify vinnur nú að kappi við að fjölga notendum og safna nýju hlutafé, áður en ný tónlistarveita Apple, sem kallast einfaldlega Apple Music, verður opnuð fyrir notendum. Báðar tónlistarveiturnar veita aðgang að meira en 30 milljónum laga fyrir tæpa tíu dollara á mánuði. Þjónusta Apple fer í loftið 30. júní næstkomandi og er mesta samkeppni sem Spotify hefur staðið frammi fyrir á þessum markaði.