Flestar fiskimjölsverksmiðjur hér á landi notuðu olíu í stað rafmagns til bræðslu á fyrstu mánuðum ársins 2016 til að draga úr kostnaði, þrátt fyrir að staðið hafði til boða að nota rafmagn. Samkvæmt Gunnþóri Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, hafa verksmiðjur í þeirra eigu ekki notað olíu síðan þá, þrátt fyrir að hún sé á köflum ódýrari en raforka.
Myndi ekki skipta í olíu aftur
Í samtali við Kjarnann segir Gunnþór verksmiðjur fyrirtækisins hafa notað olíu árið 2016, þar sem samningar við Landsvirkjun voru í uppnámi og verið var að hækka taxtann á rafmagni, á sama tíma og olíuverð voru lág.
„Menn fóru yfir í olíu að hluta en síðan var gert samkomulag við Landsvirkjun og síðan hefur verið keyrt á raforku þegar hún hefur verið í boði. Þrátt fyrir að á köflum hafi olía verið hagstæðari út frá fjárhagslegum sjónarmiðum hefur ekki verið skipt yfir olíu, enda er raforkan endunýjanleg innlend orka,“ bætti hann við
Aðspurður hvort Síldarvinnslan myndi aftur skipta yfir í olíu vegna fjárhagssjónarmiða þegar rafmagn er í boði svarar hann því neitandi og segir fleiri sjávarútvegsfyrirtæki í dag kjósa að sleppa olíu þegar mögulegt er.
Notað sem rök gegn styrkingu kerfisins
Fram kemur í umsögn Orku náttúrunnar (ON) um kerfisáætlun Landsnets frá árinu 2017 að fiskimjölsverksmiðjur hafi frekar kosið olíu heldur en rafmagn sem orkugjafa til að bræða loðnu frá janúar til apríl árinu fyrr til að draga úr kostnaði.
Ákvörðun verksmiðjanna um að nota olíu frekar en rafmagn þegar fyrri orkukosturinn var ódýrari var nefnd sem ein af ástæðunum fyrir því að fjárfestingar til að auka flutningsgetu til þeirra yrði ef til vill ekki arðbær í umsögn ON. Hinar ástæðurnar voru þær að orkumagnið sem þær notuðu væri sveiflukennt og að tíminn sem þær fullnýttu eigið afl væri stuttur.
Myndu væntanlega borga meira fyrir raforkuna
Samkvæmt ON er olía staðgönguvara raforku fyrir þessa notendur og talin hagstæðari kosturinn ef verð hennar fer undir 80 Bandaríkjadali á hverja tunnu. „Kæmi slíkt tilfelli upp mætti segja að styrking kerfis hefði haft þær afleiðingar að það stæði ónotað vegna mikils kostnaðar,“ segir í umsögninni.
Olíuverð hefur verið undir 80 Bandaríkjadölum á síðustu sjö árum, ef frá eru taldir nokkrir dagar í lok október og byrjun nóvember í ár. Þessa stundina stendur alþjóðlegt verð á olíu í 70 dölum á tunnu, en það mældist í kringum 100 dali á tunnu frá 2011 til 2014.
Þörf Landsnets á að bjóða skerðanlegan flutning myndi hverfa ef raforkuflutningskerfið yrði styrkt til muna, samkvæmt umsögn ON. Hins vegar bætir stofnunin við að fiskimjölsverksmiðjur og aðrir sem hafa keypt skerðanlegan flutning á lægra verði yrðu þá væntanlega að greiða fullt almennt verð fyrir flutninginn, sem auki hættuna á að þær kjósi aftur að kynda ofnana sína með olíu í auknum mæli.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í fyrradag að það blasi við að rafvæðing fiskimjölsverksmiðjanna séu einhver hagkvæmustu orkuskipti sem möguleg eru. „Verksmiðjurnar eru að reyna að hætta brennslu tugmilljóna lítra af olíu á hverri vertíð. Vissulega er breytileg orkunotkun þeirra áskorun, en hana má leysa og okkur ber skylda til þess að taka þátt í þeim orkuskiptum,“ bætir hann við.