Fjarskiptafyrirtækið Nova stefnir á skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar á fyrri helmingi ársins og segir frá því í fréttatilkynningu í dag að undirbúningur að skráningu sé hafinn. Félagið hefur gengið frá hlutafjáraukningu, sem ætlað er að styðja við framtíðarvöxt félagsins og áframhaldandi fjárfestingar „svo félagið viðhaldi forskoti sínu í framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina sinna.“
Samhliða hlutafjáraukningunni hafa núverandi hluthafar selt hluta af eign sinni í félaginu og eignast nýir hluthafar um 36 prósent hlut í félaginu. Í tilkynningu segir að meðal nýrra hluthafa séu sjóðir í rekstri Stefnis, Íslandssjóða og Landsbréfa.
Margrét Tryggvadóttir forstjóri Nova segir aðspurð í samtali við Kjarnann að trúnaður ríki um kaupverð þeirra hluta sem nýverið hafa verið seldir og að ekki sé mögulegt að fá hluthafalista félagsins afhentan strax, en í tilkynningu Nova segir að hluthafalisti ásamt ársreikningi og ítarlegri fjárhagsupplýsingum verði birtur í aðdraganda útboðsins.
Spennt fyrir skráningu
Í tilkynningunni frá Nova er haft eftir Margréti að vel heppnuð markaðssetning, góð þjónusta og forysta í innleiðingu nýjustu tækni hafi skilað Nova sterkri markaðshlutdeild og ánægðum og tryggum viðskiptavinum.
„Allir þessir þættir ásamt einstökum hópi starfsfólks hefur skilað félaginu miklum ávinningi og tekjuvexti undanfarin ár. Við fögnum því að fá góðan liðstyrk inní eigendahópinn og erum spennt fyrir því að stíga það skref að skrá félagið á markað. Með skráningu félagsins fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að uppbyggingu fjarskiptainnviða á Íslandi,“ er einnig haft eftir Margréti í tilkynningu félagsins.
Fjárfestingafélagið Pt Capital, sem er með höfuðstöðvar sínar í Alaska í Bandaríkjunum, er stærsti eigandi Nova. Hugh Short, forstjóri Pt Capital og stjórnarformaður Nova, segir ánægju ríkja með nýja hluthafa. Í tilkynningu Nova er haft eftir Short að Pt Capital og Nova hlakki til að vinna með nýjum hluthöfum í átt að frekari vaxtartækifærum og til að styðja við skráningu á markað.
„Nova hefur sýnt stöðugan vöxt á fjarskiptamarkaði og hefur náð sterkri markaðshlutdeild þar. Okkar stefna er að virkir innviðir fjarskiptakerfis okkar séu í eigu Nova. Fyrirtækið stefnir á framhaldandi vöxt og frekari stuðning við uppbyggingu á 5G fjarskiptakerfi,“ er einnig haft eftir Short.