Millinafnið Ármúla var á meðal þeirra nafna sem samþykkt voru af hálfu mannanafnanefndar á fundi sem fram fór á þriðjudag, en erindi þar sem óskað var eftir því að nafnið yrði samþykkt barst til nefndarinnar um miðjan september.
Í úrskurði mannanafnanefndar segir að millinafnið Ármúla uppfylli þau skilyrði sem í lögum um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt til að nöfn fái samþykki sem millinafn.
Það er dregið af íslenskum orðstofni, hefur ekki nefnifallsendingu, hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn karla né kvenna og þykir ekki til þess fallið að verða nafnbera til ama.
Nafnið er síðan heldur ekki ættarnafn og uppfyllir þannig öll ákvæði laga um mannanöfn sem mannanafnanefnd horfði til.
Á úrskurðarvef stjórnarráðsins hafa í dag birst allnokkrir úrskurðir mannanafnanefndar frá því á þriðjudaginn.
Ekki öll nöfn hlutu brautargengi eins og Ármúla, en til dæmis var beiðnum um millinöfnin Street og Thunderbird báðum hafnað. Auk þess var umsókn um eiginnafnið Hel hafnað.