Nýjasta æðið á meðal aukýfinga í ofursnekkjubransanum, er að panta sér eitt stykki foss í snekkjuna. Nei, þetta er ekki grín heldur staðreynd sem fréttamiðillinn Business Insider greinir frá.
Maður getur varla talist sem alvöru auðkýfingur nema maður eigi eitt stykki ofursnekkju. Fljótandi höll er nefnilega eitt helsta stöðutákn hinna vellauðugu, þar sem þeir geta dvalið í íburði og vellystingum.
Snekkjurnar, að minnsta kosti þær allra nýjustu og flottustu, eru svo ríkulega vélbúnaði búnar að þær geta náð allt að 30 sjómílna siglingahraða, eða hátt í 55 kílómetra hraða á klukkustund. Samkvæmt umfjöllun Business Insider kosta minnstu ofursnekkjurnar, án mikils íburðar, um 74 milljónir bandaríkjadala, eða hátt í tíu milljarða íslenskra króna.
Ofursnekkjufoss. Mynd: Heesen Yachts
Þegar þú átt auðæfi sem slá við landsframleiðslu lítils ríkis, getur þú hlaðið ofursnekkjuna þína með ýmsum tilgangslausum aukahlutum, eins og fossi sem er nú heitasta viðbótin við vellystingarnar um borð í nýjum ofursnekkjum heimsins. En auðkýfingarnir vilja ekki bara fá fossana út frá fagurfræðilegu sjónarmiði, heldur þykja fossarnir einnig um margt praktískir.
Til að mynda ef skrúfað er hressilega frá vatningu getur fossinn virkað eins og skjöldur og gert ljósmyndurum erfiðara fyrir að ná myndum af frægum ofursnekkjufarþegum, hvort sem þeir eru kvikmyndastjörnur, konungbornir eða stjórnmálamenn. Þá er auk þessa hægt að nota aflmikla fossa sem skjái fyrir skjávarpa, hefur Business Insider eftir Söru Gioanola, framkvæmdastjóra hjá hollenska snekkjuframleiðandanum Heesen.