Heimildamyndin „Going Clear: Scientology and the Prison of Belief“ sem fjallar um Vísindakirkjuna var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni á sunnudaginn. Myndin verður tekin til sýninga á HBO sjónvarpsstöðinni í mars, en í henni er rætt við marga fyrrverandi háttsetta meðlimi Vísindakirkjunnar.
Margir hafa beðið spenntir eftir að berja myndina augum, og ekki minnkaði eftirvæntingin þegar fréttist af því að HBO hefði ráðið um 160 lögfræðinga til að rýna í myndina fyrir frumsýningu hennar, til að forðast lögsóknir. Svo uggandi er Vísindakirkjan yfir viðbrögðum almennings við myndinni að hún keypti heilsíðuauglýsingu í dagblaðinu New York Times á dögunum, þar sem trúverðugleiki myndarinnar er dreginn í efa og leikstjórinn gagnrýndur fyrir að gefa kirkjunni ekki nægilegt tækifæri til að svara fyrir sig.
Heimildamyndin er byggð á samnefndri bók eftir Pulitzer-verðlaunahafann Lawrence Wright, en bókin olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út árið 2013. Leikstjóri myndarinnar er Alex Gibney sem er gríðarlega afkastamikill kvikmyndagerðarmaður á sviði heimildamynda. Gibney skrifaði og leikstýrði meðal annars heimildamyndinni um Enron, og hlaut óskarsverðlaunin árið 2009 sem framleiðandi að heimildamyndinni „Taxi to the Dark Side“ sem hann leikstýrði einnig en myndin fjallar um pyntingar Bandaríkjahers á föngum í Afganistan, Írak og Gúantanamó fangabúðunum.
Hvert hneykslismálið á fætur öðru
Gestir á frumsýningu myndarinnar á Sundance kvikmyndahátíðinni á sunnudaginn, risu upp úr sætum og hylltu leikstjóra myndarinnar með dynjandi lófaklappi eftir að henni lauk. Nú berast fréttir af þeim hneykslismálum sem myndin ku vera nokkuð rík af. Fréttamiðillinn Business Insider greinir frá nokkrum þeirra.
Samkvæmt blaðamanni The Daily Beast, sem var viðstaddur frumsýningu heimildamyndarinnar á sunnudaginn, kemur fram í myndinni hvernig Vísindakirkjan neyddi kvikmyndastjörnuna Tom Cruise til að skilja við þáverandi eiginkonuna sína, kvikmyndastjörnuna Nicole Kidman. Í myndinni segir Marty Rathbun, sem var um tíma næst háttsettasti maður Vísindakirkjunnar, hvernig honum var falið af kirkjunni að stuðla að skilnaði kvikmyndastjarnanna.
Vísindakirkjunni fannst stafa ógn af Kidman og hafði áhyggjur af því að hún hefði óæskileg áhrif á Cruise sem var og hefur verið einn áhrifamesti talsmaður kirkjunnar út á við. Þá hafði kirkjan áhyggjur af áhrifum Kidman á Cruise, þar sem faðir hennar starfar sem sálfræðingur en Vísindakirkjan er mikill andstæðingur sálfræði og geðlækninga. Í myndinni er greint frá þeim fjölmörgu aðferðum sem kirkjan beitti til að skilja að Cruise og Kidman, sem leiddi til þess að parið skildi árið 2001. Þá er greint frá því í myndinni hvernig ættleidd börn hjónanna voru heilaþvegin af Vísindakirkjunni til að snúa þeim gegn Kidman og tryggja Cruise forræðið yfir þeim.
John Travolta kúgaður til fylgni
Vísindakirkjan hefur frá stofnun lagt mikið upp úr því að fá stórstjörnur til liðs við sig. Í heimildamyndinni kemur fram til hvaða aðferða kirkjan grípur til að halda stjörnunum innan sinna vébanda.
Vísindakirkjan hefur víst vitneskju um svæsnustu leyndarmál John Travolta og hefur hótað honum að opinbera þau gangi hann úr söfnuðinum.
Samkvæmt umfjöllun fréttamiðilsins The Vulture er töluvert fjallað um tengsl Vísindakirkjunnar við kvikmyndastjörnuna John Travolta, sem er annað krúnudjásn kirkjunnar ásamt áðurnefndum Tom Cruise. Í heimildamyndinni er sagt frá því hvernig Vísindakirkjan kúgar John Travolta til fylgni við sig með því að hóta honum að gera ella opinber fjölmörg leyndarmál sem Travolta hefur trúað kirkjunni fyrir.
Vísindakirkjan komst yfir leyndarmál Travolta með svokallaðri „andlegri endurskoðun“ þar sem sóknarbörn segja frá öllum sínum dýpstu leyndarmálum sem kirkjan skrásetur og notar svo til að veita viðkomandi „hvatningu.“
Samkvæmt fleiri heimildum er sömuleiðis fjallað um það margvíslega líkamlega og andlega ofbeldi sem Vísindakirkjan beitir meðlimi sína í myndinni, og hvernig kirkjan hefur sankað að sér hátt í milljarð Bandaríkjadala á undanförnum árum.