Ný heimildarmynd bandaríska leikstjórans Michael Moore verður frumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, TIFF, í september næstkomandi. Myndin heitir „Where to Invade Next“ eða „Næsta innrás“ í lauslegri þýðingu. Samkvæmt frétt The Guardian fjallar heimildarmyndin um það hvernig bandarísk stjórnvöld eru sífellt í stríðsrekstri.
Where to Invide Next verður fyrsta myndin frá Moore í sex ár en hann hefur leikstýrt fjölda mynda. Hann fékk Óskarsverðlaun fyrir heimildarmyndina Bowling for Columbine árið 2002, gerði Fahrenheit 9/11 árið 2004 um stríð George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseta, gegn hryðjuverkum, og fjallaði um brotalamir í bandarísku heilbrigðiskerfi í myndinni Sicko frá árinu 2007. Fahrenheit 9/11 er tekjuhæsta heimildarmynd allra tíma.
Moore greindi frá umfjöllunarefni nýju myndarinnar í gegnum útsendingar-forritið Periscope í gær. Hægt er að horfa á sex mínútna langa upptökuna hér að neðan, þar sem Moore svarar meðal annars spurningum sem honum bárust á Twitter. Moore byrjaði á því að heilsa „vinum mínum hjá NSA [Bandaríska þjóðaröryggisstofnunin] sem eru að horfa“ en Moore, sem er afar pólitískur, hefur verið mjög gagnrýnin á starfsemi eftirlitsstofnunarinnar.
Að sögn Moore var myndin tekin upp í þremur heimsálfum og hafa tökur farið fram leynilega síðustu sex ár. „Það að Bandaríkin séu í stöðugum stríðsrekstri hefur valdið mér nokkrum áhyggjum um nokkra hríð og veitir nauðsynlega háðsdeilu fyrir þessa mynd. Það er þessi stanslausa þörf að eiga óvin, hvar er næsti óvinur þannig að við getum haldið heriðnaðinum gangnandi, og haldið fyrirtækjunum sem græða helling af peningum lifandi. Þetta hefur alltaf truflað mig og þaðan kemur gamanmyndin,“ sagði Moore. Blaðamenn The Guardian meta það svo að orðalagið bendi til að tónninn í heimildarmyndinni verði kaldhæðinn og gamansamur, eins og áður hefur sést í heimildarmyndum Moore.
Here's the 6-min video from the Periscope I just did regarding my new film, WHERE TO INVADE NEXT. #W2IN #TIFF15 https://t.co/lKhLhTPUpn
— Michael Moore (@MMFlint) July 28, 2015
Var á Íslandi í maí
Það vakti nokkra athygli þegar Michael Moore var staddur á Íslandi í maí síðastliðnum. Hann hitti meðal annars Jón Gnarr og Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata. Fátt bendir til að heimsókn hans þá, sem sögð var í fjölmiðlum vera í tengslum við nýja heimildarmynd, hafi tengst heimildarmyndinni sem frumsýnd verður í Toronto næsta haust.
Michael Moore er hress í Leifsstöð. "Welcome to Iceland" sagði hann pic.twitter.com/PElYINavJ9
— Helgi Kristinn (@HelgiKris) May 8, 2015