Flestir Íslendingar vilja að Jón Gnarr taki við af Ólafi Ragnari Grímssyni sem forseti Íslands. Þetta kemur fram í niðurstöðu könnunar sem Fréttablaðið gerði. Alls sögðust 47 prósent þeirra sem svöruðu að þeir vildu Jón Gnarr sem næsa forseta. Ragna Árnadóttir var nefnd næstoftast, en níu prósent þeirra sem svöruðu vilja hana í forsetastólinn.
Í könnuninni var spurt: Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta forseta Íslands? Hringt var í 1.241 manns þangað til að 801 svaraði. Alls tóku 34 prósent aðspurðra í könnuninni afstöðu til spurningarinnar með því að nefna tiltekið nafn. 58 prósent nefndu ekkert nafn og átta prósent kusu að svara ekki spurningunni.
Í samtali við Fréttablaðið sagðist Jón Gnarr snortinn yfir niðurstöðunni. Hann hafi ekki velt framboði yrir sér en segir að niðurstöðurnar verði til þess að hann muni leggjast undir feld og ræða málin við fjölskylduna sína.
Jón Gnarr er annar helmingur Tvíhöfða, sem mun hefja göngu sína í hlaðvarpi Kjarnans næstkomandi miðvikudag. SUm verður að ræða vikulega hlaðvarpsþætti sem hægt verður að nálgast á vefsíðu Kjarnans eða með því að gerast áskrifandi í gegnum snjalltæki. Það er gert með því að leita að „Kjarninn“ í öllum hlaðvarpsöppum. Nánari upplýsingar verður hægt að nálgast á www.kjarninn.is á sama tíma og fyrsti þátturinn fer í loftið.