Á síðustu starfsdögum yfirstaðins þings voru samþykkt lög sem gera einstaklingum kleift að leigja út ökutæki sín til annarra með milligöngu sérstakra leigumiðluna. Frumvarpið var lagt fram af Ragnheiði Elínu Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Fyrirtækið VikingCars vekur athygli á samþykkt laganna með fjöldapósti til fjölmiðla í dag og segir lögin skapa svigrúm fyrir fólk til að hafa tekjur af heimilisbílnum sínum með útleigu. Fyrirtækið hóf starfsemi fyrir ári síðan og er milligönguaðili um útleigu einkabíla. „Fyrirtækið stenst nú þegar allt sem ný lög fara fram á og við erum stolt af því,“ segir Sölvi Melax, framkvæmdastjóri VikingCars í tilkynningu.
Samkvæmt upplýsingum frá VikingCars má líkja þessu nýja fyrirkomulagi á útleigu einkabíla við húsnæðismiðlunina Airbnb. „Nýju lögin skapa umgjörð utan um þá starfsemi þegar einstaklingur leigir ökutæki til annars einstaklings með milligöngu miðlunar. Með lögunum er hverjum einstaklingi heimilt að leigja út tvö ökutæki í ótakmarkaðan tíma á ári.
Einstaklingar sem leigja bíl sinn út hluta af ári geta betur mætt kostnaði við rekstur hans. Flestir myndu vilja leigja bíla sína út á sumrin þegar það sjálft notar aðra ferðamáta svo sem hjól. Á sumrin er einnig eftirspurnin mest og það er því þjóðhagslega hagkvæmt og umhverfisvænt að nýta þá bílaeign sem til er í landinu. Í fyrra voru fluttir inn 10.462 nýir bílar til landsins og af þeim keyptu bílaleigur og fyrirtæki 62% þeirra. Einstaklingar keyptu aðeins tæplega fjögur þúsund bíla eða 3.984. Við erum með einn elsta bílaflota innan OECD landanna og mögulega getur deilihagkerfið hjálpað okkur við að snúa þeirri þróun við. Við þurfum einnig að mæta þörf vegna aukinnar ferðaþjónustu, en áætlanir gera ráð fyrir að um 1.200 þúsund ferðamenn komi til Íslands um Keflavíkurflugvöll í ár,“ segir í tilkynningu.
Taka þátt í Startup Reykjavík
VikingCars tekur í sumar þáttt í Startup Reykjavík viðskiptahraðlinum, sem aðstoðar frumkvöðla við fyrstu skref í að koma nýjum hugmyndum í framkvæmd. Rúmlega 60 bílar eru nú á skrá á vefsíðu fyrirtækisins og fjölgar daglega, að því er segir í tilkynningu til fjölmiðla. „Við sem önnumst milligöngu um þessi viðskipti berum ábyrgð á að viðskiptin gangi faglega og greiðlega fyrir sig. Ábyrgð okkar sem eru millugönguaðilar er því nokkur og mikilvægt að vel sé að miðluninni staðið. Við hjá VikingCars höfum á því ári sem við höfum starfað gert samninga við öll tryggingarfélögin. Allir bílar sem við framleigjum eru tryggðir eins og um bílaleigubíla sé að ræða meðan þeir eru í útleigu. Við önnumst skráningar ökutækja í réttan notkunarflokk hjá Samgöngustofu, göngum úr skugga um að ökutæki hafi lögbundna aðalskoðun, að ábyrgðartrygging sé í gildi og að ökutækin hafi hlotið viðhald og eftirlit og séu í ásigkomulagi sem tekur mið af árstíma og færð. Auk þess býður VikingCars uppá vegaaðstoð gerist þess þörf meðan ökutæki er í útleigu.“