Handahófskenndar stökkbreytingar gena orsaka 65 prósent alls krabbameins. Það þýðir að einungis 35 prósent krabbameins er hægt að rekja til erfða eða óheilbrigðra lifnaðarhátta á borð við reykinga. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem framkvæmd var við Johns Hopkins læknaháskólann í Baltimore og birt í nýjustu útgáfu hins virta tímarits Science, sem kom út í dag. Business Insider greinir frá.
Lukkan virðist því, samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar, skipta meira máli við að ákvarða hver fær krabbamein og hver ekki en það hvernig lífstíl viðkomandi lifir eða erfðir.
Eins og að tapa í lottóinu
Rannsakendurnir könnuðu 31 tegundir af krabbameini og komust að þeirri niðurstöðu að 22 þeirra, þar á meðal hvítblæði, krabbamein í brisi, beinum, eistum, eggjastokkum og heila, skýrðist að langmestu leyti af handahófskenndum stökkbreytingum gena, sem þeir kalla „lífræðilega ólukku“.
Hinar níu tegundirnar sem skoðaðar voru, þeirra á meðal krabbamein í þörfum, húðkrabbamein og reykingartengt lungnakrabbamein, eru taldar ráðast meira á erfðum og umhverfisbreytum á borð við áhættuhegðun eða sambýli við krabbameinsvaldandi efni.
Læknirinn Bert Vogelstein og lífefnastærðfræðingurinn Christian Tomasetti framkvæmdu rannsóknina. Á vef Business Insider er haft eftir Vogelstein að þegar fólk greinist með krabbamein þá vill það samstundis fá að vita af hverju. „Það vill trúa því að það sé ástæða. Og raunverulega ástæðan er í mörgum tilfellum ekki sú að þú hafir ekki hegðað þér vel eða hafir verið berskjaldaður gagnvart einhverjum slæmum umhverfislegum áhrifum, heldur vegna þess að viðkomandi var óheppinn. Þetta er eins og að tapa í lottóinu“.
Tomasetti sagði að breytingar á lífstíl, á borð við að hætta að reykja, geti hjálpað til við að forðast að auka líkur á ýmsum tegundum krabbameins, en að þær séu mun áhrifaminni við að hindra myndun annarra tegunda.