Atvinnuleysi á árinu verður að jafnaði um 4,1 prósent og 3,6 prósent árið 2016, gangi spá Vinnumálastofnunar eftir, en hún byggir meðal annars á hagvaxtaspá Hagstofunnar. Næstu þrjú árin verða ný störf að stórum hluta til í greinum sem tengjast ferðaþjónustu auk þess sem gert er ráð fyrir að umsvif í byggingaiðnaði aukist næstu árin. Atvinnulausum mun fækka um um nærri 1.000 manns á ári fram til 2017, samkvæmt spánni.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á vinnumarkaði á árunum 2015 til 2017.
„Undanfarin ár hefur hlutfallslega mest orðið til af störfum fyrir ófaglærða eða fólk með margs konar menntun á framhaldsskólastigi enda mest um þjónustustörf af því tagi í ferðaþjónustu. Hlutfallslega minna hefur verið um ný störf fyrir háskólamenntaða. Á sama tíma er menntunarstig þeirra sem eru að koma nýir inn á vinnumarkað mun hærra en þeirra sem eru að fara af vinnumarkaði sökum aldurs,“ segir í skýrslunni. Þetta endurspeglast í því að fjöldi háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá hefur haldist svipaður í um tvö og hálft ár, og hlutfall háskólamenntaðara hefur því farið vaxandi [eftir því sem atvinnulausum alls hefur fækkað].
Atvinnuleysi á síðasta ári mældist mest í janúar 4,5 prósent en lægst í september um 3 prósent. Í janúar og febrúar síðastliðnum mældist atvinnuleysi 3,6 prósent. Í lok febrúar voru um 6.300 á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar.