Framleiðendur íslenskra sjónvarpsþáttaraða munu, ef lagafrumvarp og ný reglugerð frá ráðherra menningarmála ná fram að ganga, geta sótt um sérstaka framleiðslustyrki til lokafjármögnunar, sem eiga að geta numið allt að 200 milljónum króna fyrir hverja þáttaröð – en þó að hámarki 25 prósentum af heildarframleiðslukostnaði verkefnisins.
Þessir styrkir, sem Lilja Alfreðsdóttir ráðherra kynnir í drögum að breytingum á kvikmyndalögum og reglugerð um Kvikmyndasjóð, sem kynnt voru á samráðsgátt stjórnvalda fyrir helgi, yrðu hrein viðbót við þá framleiðslustyrki sem Kvikmyndasjóður veitir nú þegar.
Lokafjármögnunarstyrkirnir eru frábrugðnir framleiðslustyrkjum sem Kvikmyndasjóður veitir í dag að því leyti að ef sjóðurinn veitir slíka styrki til verkefna fær sjóðurinn rétt á því hluta þeirra tekna sem sjónvarpsþáttaröðin halar inn á heimsvísu.
Ekki er heimild í lögum fyrir þessu styrkjafyrirkomulagi í dag og því þarf að breyta kvikmyndalögunum, svo hin nýja reglugerð um styrkina geti tekið gildi.
Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpsdrögunum stendur ekki til að hækka framlög til Kvikmyndasjóðs vegna þessarar nýju tegundar styrkja, en sökum þess að gengið er út frá því að þeir endurheimtist er þó búist við því að heildarsumman sem Kvikmyndasjóður geti úthlutað verði stærri en áður.
Einungis fyrir söluvænlegt efni
Sérstakir lokafjármögnunarstyrkir fyrir sjónvarpsþáttaraðir eru bundnir allnokkrum skilyrðum.
Samkvæmt því sem segir í reglugerðardrögunum verður einungis heimilt að veita þeim til leikinna sjónvarpsþáttaraða „sem höfða til breiðs hóps áhorfenda, eru á íslensku eða hafa aðra íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun og stuðla að eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar“.
Verkefnin sem styrkt verða eiga auk þess að hafa „mikla markaðs- og dreifingarmöguleika“ og það þarf að vera búið að selja verkefnið til að minnsta kosti tveggja fjölmiðlaveitna á ólíkum markaðssvæðum.
Styrkhæfar þáttaraðir þurfa að vera að lágmarki 150 mínútur í sýningu og hver þáttur að lágmarki 25 mínútur að lengd. Að hámarki mega þættirnir þó vera 12 í hverri þáttaröð og 600 mínútur í sýningu í heild sinni. Sjónvarpsmyndum má ekki skipta upp í hluta til þess að mæta skilyrðum reglugerðarinnar um fjölda þátta.
Samkvæmt drögunum að reglugerðinni verður einungis heimilt að styrkja fyrstu og aðra þáttaröð í framleiðslu. Þó eru undanteknir frá þeirri reglu, en ef að endurheimt styrks sem veittur er vegna þáttaraðar númer tvö er hafin, má Kvikmyndasjóður styrkja gerð þáttaraðar númer þrjú.
Ætlað að mæta nýjum tímum
Þetta nýja styrkjafyrirkomulag er í samræmi við fyrirætlanir sem fólust í sérstakri kvikmyndastefnu íslenska ríkisins fram til árið 2030. Í þeirri stefnu, sem kynnt var haustið 2020, sagði að styðja þyrfti við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna þáttaraða í anda þess sem gerist hjá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum.
Sá sjóður, sem hefur úthluta lokafjármögnunarstyrkjum til margra íslenskra kvikmyndaverkefna á undanförnum árum, styrkir framleiðslu í formi lána sem endurgreiðast samkvæmt reglum sjóðsins.
Í samráðsgátt stjórnvalda segir að áhersla verði lögð á afgreiðslu umsókna um þessa nýju styrki verði verði hraðað eins og unnt er, og að styrkjaflokknum sé ætlað að „koma til móts við nýja tíma í kvikmyndagerð, sem einkennast af hröðu þróunar- og fjármögnunarferli verkefna“.